Viðskipti innlent

Milljarða hagnaður OR

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur skilaði meira en fimm milljarða hagnaði á fyrri hluta ársins, þrátt fyrir að stjórn Orkuveitunnar telji hana ekki geta staðið undir endurgreiðslu lána að óbreyttu. Stjórnarformaðurinn segir hagnaðinn kunna að horfa einkennilega við almenningi.

Á sama fundi og stjórn Orkuveitunnar samþykkti miklar gjaldskrárhækkanir til að styrkja rekstur fyrirtækisins samþykkti stjórnin árshlutareikning fyrirtækisins.

Þar kemur fram að reksturinn hafi skilað meira en 5,1 milljarðs króna hagnaði fyrstu sex mánuði ársins, en til samanburðar má nefna að gjaldskrárhækkuninni er ætlað að skila fjögurra milljarða auknum tekjum. Þess verður farið á leit við eigendur Orkuveitunnar að arðgreiðslur af hagnaði verði felldar niður tímabundið.

Helstu ástæður þessa viðsnúnings í rekstri Orkuveitunnar eru styrking íslensku krónunnar og lækkun fjármagnskostnaðar. Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður orkuveitunnar, nefnir einnig að þróun álverðs hafi verið fyrirtækinu hagstæð þar sem orkuverð til stóriðju er því tengt.

Haraldur segir fyrirtækið þurfa að fjármagna sig svo það geti staðið undir skuldbindingum sínum á hverjum tíma, en stjórn þess taldi að Orkuveitan gæti að óbreyttu ekki staðið undir endurgreiðslu lána sinna. Betri afkoma leiði þó til þess að það gangi betur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×