Innlent

Miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi

Freyr Bjarnason skrifar
Yfirdýralæknir Sigurborg Daðadóttir vonast til að fá góð viðbrögð frá bændum.
Yfirdýralæknir Sigurborg Daðadóttir vonast til að fá góð viðbrögð frá bændum.
Heilasýni úr íslenskum nautgripum hafa skilað sér illa til rannsókna og svo gæti farið að Ísland missi stöðu sína sem kúariðulaust land ef ekki verður gerð bragarbót á því.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir það vera alvarlegt mál ef Ísland missir viðurkenningu Alþjóðlegu dýraheilbrigðismálastofnunarinnar sem kúariðulaust land. Til að geta viðhaldið stöðu sinni verður Ísland árlega að sýna fram á tilskilinn fjölda sýna til skimunar.

„Viðskiptalegir hagsmunir landsins eru í húfi því Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin er þessi gæðastimpill fyrir löndin. Öll viðskiptalönd leita á heimasíðu stofnunarinnar eftir heilbrigðisstöðu hvers lands,“ segir Sigurborg, aðspurð. „Það geta verið miklir hagsmunir í húfi í viðskiptum með dýraafurðir ef landið er ekki með þennan gæðastimpil.“

Kúariða er banvænn sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Að sögn Sigurborgar hvatti Matvælastofnun bændur til að láta vita af grunsamlegum tilvikum heima á bæjum.

„Við höfðum samband við forystu Landssambands kúabænda í vor og þeir tóku vel í þetta og hvöttu bændur til að láta okkur vita af grunsamlegum kúm, kúm sem er slátrað heima í neyðarslátrun eða þeim sem sýna klínísk einkenni en það hefur ekki skilað sér. Núna erum við að hvetja virkilega til þess að bændur láti okkur vita,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×