Innlent

Mikill missir að Einari K. segir formaður Sjálfstæðisflokksins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins Vísir/Anton Brink
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé mikill missir að Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni flokksins og forseta þingsins, en hann tilkynnti í dag að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Áætlað er að Alþingiskosningar verði í haust.

„Þetta er ekki aðeins missir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þingflokk hans heldur fyrir þingið að sjá á eftir bæði reynslumiklum þingmanni og einstökum karakter sem hefur notið mikils trausts sem forseti þingsins,“ segir Bjarni í samtali við Vísi.

Einar tilkynnti um ákvörðun sína á Facebook-síðu sinni en aðspurður segir Bjarni að Einar hafi talað við hann áður en hann setti færsluna á samfélagsmiðilinn.

Bjarni segir að það komi honum ekki mikið á óvart að Einar skuli nú kjósa að hætta þingmennsku.

„Ég hefði sannarlega viljað njóta krafta hans áfram. Hann hefur mikið fram að færa og það sést mjög vel á hans störfum og hversu vel er tekið eftir hans framgöngu á kjörtímabilinu,“ segir Bjarni.

Eins og flestir þekkja hafa verið miklar hræringar í stjórnmálunum síðustu vikur og nú þegar gefið hefur verið út að kosið verði í haust má búast við því að fleiri tilkynni um að þeir hyggist kveðja þingið. Óttast formaður Sjálfstæðisflokksins að fleiri þingmenn eigi eftir að hætta á næstu misserum?

„Það er ekkert óeðlilegt við það að það verði endurnýjun í stjórnmálunum. Við höfum séð mikla endurnýjun í tvennum síðustu kosningum og það er eitthvað sem ég hræðist í sjálfu sér ekki neitt. Það er bara gangur lífsins í stjórnmálunum eins og annars staðar að það verða breytingar,“ segir Bjarni.

En þú sjálfur ætlar ekkert að hætta?



„Nei, ég hafði nú ekki hugsað mér það.“




Tengdar fréttir

Einar K. hættir í haust

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að leita ekki endurkjörs í næstu alþingiskosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×