Viðskipti innlent

Midi.is fær samkeppni

Atli Ísleifsson skrifar
Tix er ætlað að annast sölu miða á ýmsa viðburði á Íslandi, líkt og á tónleika og leikhússýningar.
Tix er ætlað að annast sölu miða á ýmsa viðburði á Íslandi, líkt og á tónleika og leikhússýningar.
Miðasöluvefurinn Tix fór í loftið í dag en honum er ætlað að annast sölu miða á ýmsa viðburði á Íslandi, líkt og á tónleika og leikhússýningar.

Miðasala á Sónar Reykjavík 2015 er þegar hafin á síðunni og á næstu vikum munu enn fleiri viðburðir bætast við, segir í tilkynningu.

„Þróunarvinnunni er ekki lokið og er stefnt að því að innan skamms geti notendur skráð sig inn, valið sér sæti, átt uppáhaldssæti í hinum ýmsu sölum á landinu og margt fleira sem fram að þessu hefur ekki verið í boði í miðasölu hér á landi.

Stór hluti vinnunnar sem hefur átt sér stað í kringum síðuna felst í sjálfu miðasölukerfinu sem liggur á bakvið vefsíðuna. Það er hugsað til þess að stofna viðburði, taka út skýrslur, byggja sali, selja miða við inngang og margt fleira. Kerfið er einnig uppbyggt með þeim hætti að auðvelt er að styðjast við snertiskjá fyrir viðburði og jafnvel nota spjaldtölvur sem tengjast prentara eða posa í gegnum þráðlaust net.“

Sindri Már Finnbogason.
Sindri Már Finnbogason, framkvæmdastjóri Tix og aðaleigandi, segir vefinn fara hægt af stað og gera það vel og vandlega. „Vefurinn er enn í þróun en í nóvember munu fleiri viðburðir bætast við ásamt nýjungum á vefnum sjálfum. Okkar markmið er að gera miðasölu á Íslandi einfaldari, aðgengilegri og síðast enn ekki síst enn betri.“

Í tilkynningunni segir að Sindri hafi verið einn stofnenda miðasöluvefsins Miði.is en réði sig síðar til starfa fyrir Billetlugen, stærsta miðasölufyrirtæki Danmerkur. „Sindri, sem er forritari, var lykilmaður í þróun bæði Miða.is og Billetlugen. Hann hefur á undanförnum árum sett upp miðasölukerfi fyrir viðskiptavini um alla Skandinavíu; svo sem Hróarskelduhátíðina, tónlistarhúsið í Árósum, Tívolí, Danmarks Radio, Stavanger tónlistarhús í Noregi, Norsku Óperuna, Gautaborgaróperuna og fleiri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×