Innlent

Metmæling á þorskstofninum annað árið í röð

Svavar Hávarðsson skrifar
Bestu mælingar frá upphafi hafa fengist 2015 og 2016.
Bestu mælingar frá upphafi hafa fengist 2015 og 2016. Fréttablaðið/JSE
Annað árið í röð sýna rannsóknir Hafrannsóknastofnunar að þorskstofninum við landið vex mjög ásmegin. Vísitölur síðustu tveggja ára eru þær hæstu frá upphafi rannsóknanna árið 1985, og meira en tvöfalt hærri en árin 2002 til 2008.

Árgangur ársins 2014 mældist stór líkt og í síðustu stofnmælingu og fyrsta mat á 2015 árgangi þorsks bendir til að hann sé einnig stór.

Þetta eru niðurstöður stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum, eða marsralls, sem fór fram í 32. sinn dagana 24. febrúar til 19. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Bjartur NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið og alls tóku um 90 manns þátt í verkefninu.

Helstu markmið verkefnisins eru að fylgjast með breytingum á stærð, útbreiðslu og líffræðilegu ástandi botnlægra fiskistofna og hitastigi sjávar á landgrunninu.

Þorskurinn virðist hafa nóg að bíta og brenna því magn fæðu í þorski var með því mesta sem sést hefur í tvo áratugi. Þar munar mest um loðnu sem var lang mikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma.

Fréttir af ýsustofninum eru síðri. Eftir að stofn ýsu stækkaði verulega á árunum 2002-2006 í kjölfar góðrar nýliðunar og aukinnar útbreiðslu norður fyrir land hefur hallað undan fæti. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé sterkur, en hann kom í kjölfar sex lélegra árganga. Fyrsta mæling á árgangi 2015 bendir til að hann sé undir meðalstærð.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 22. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×