Fótbolti

Metið sem Koeman er að missa til Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi býr sig undir að taka aukaspyrnu.
Lionel Messi býr sig undir að taka aukaspyrnu. Vísir/Getty
Lionel Messi hefur verið duglegur að safna að sér metum hjá Barcelona og nú er enn eitt metið komið í hús eftir leik Barcelona liðsins um síðustu helgi.

Messi skoraði sitt sjöunda aukaspyrnumark á tímabilinu í 7-0 sigri á nágrönnunum úr Espanyol um síðustu helgi.

Þetta þýðir að argentínski snillingurinn er búinn að skora 23 aukaspyrnumörk fyrir Barcelona á ferlinum og hefur þar með jafnað met Ronald Koeman.

Lionel Messi fékk þó ekki að taka sína fyrstu aukaspyrnu fyrir Barcelona fyrr en tímabilið 2008-09 sem var jafnframt fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Pep Guardiola.

Fram að því eða á fyrstu fjórum tímabilum hans með aðalliðið Barcelona höfðu þeir Ronaldinho, Thierry Henry og Xavi Hernandez séð um að taka þessar aukaspyrnur við vítateig andstæðinganna.

Frægasta aukaspyrna Ronald Koeman fyrir Barcelona var þegar Hollendingurinn tryggði liðinu 1-0 sigur á Sampdoria á Wembley í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1992.

Ronald Koeman skoraði alls 88 mörk í öllum keppnum fyrir Barcelona á sex tímabilum sínum með liðinu og flest þeirra komu úr annaðhvort vítaspyrnum eða aukaspyrnum.

Ronald Koeman mun áfram eiga eitt met sem litlar líkur eru á að Messi bæti en hann skoraði á sínum tíma úr 25 vítum í röð í spænsku deildinni. Messi hefur nefnilega verið afar duglegur að klikka á sínum vítaspyrnum að undanförnu.

Lionel Messi hefur skorað 41 mark í 47 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu og alls 453 mörk í 529 leikjum með Barcelona. Messi hefur skorað 40 mörk eða meira á undanförnum sjö tímabilum.

Barcelona getur tryggt sér spænska meistaratitilinn með sigri á Granada um helgina og framundan er síðan bikarúrslitaleikurinn á móti Sevilla 22. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×