Erlent

Mesta snjóveður í Stokkhólmi frá upphafi mælinga

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúar hafa margir gagnrýnt yfirvöld þar sem snjóruðningur hefur gengið hægt.
Íbúar hafa margir gagnrýnt yfirvöld þar sem snjóruðningur hefur gengið hægt. Vísir/AFP
Mikið hefur snjóað í Stokkhólmi síðustu daga en ekki hefur snjóað jafn mikið í sænsku höfuðborginni frá upphafi mælinga sænsku veðurstofunnar árið 1905.

Snjórinn hefur skiljanlega haft mikil áhrif á samgöngur í borginni þar sem strætisvagnaferðum á höfuðborgarsvæðinu öllu var aflýst í gær. Þá hafði snjórinn einnig mikil áhrif á flugumferð til og frá Arlanda-flugvelli. Búist er við frekari töfum á almenningssamgöngum í dag.

Formlegar mælingar Veðurstofunnar eru framkvæmdar klukkan sjö á morgnana og mældist snjódýptin 21 sentimetri í gærmorgun en óformleg mæling síðar um daginn sýndi um 30 sentimetra. Í morgun mældist dýptin svo 39 sentimetrar.

Þar er vísað í þá snjódýpt sem hefur mælst í Stokkhólmi í nóvembermánuði en fyrra metið var 29 sentimetrar árið 1985 og aftur 2004. Spáð er frosti næstu daga svo snjórinn mun ekki hverfa á næstunni. Spáð er mildara veðri í næstu viku.

Íbúar hafa margir gagnrýnt yfirvöld þar sem snjóruðningur hefur gengið hægt. Þá hafa margir skilið bíla sína eftir á götum eftir að hafa fests, sem skapað hefur mikla hættu og vandræði í umferðinni.

Að neðan má sjá myndband frá aðstæðum í Stokkhólmi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×