Fótbolti

Messi: Ekkert sársaukafullra en að tapa úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi eftir úrslitaleikinn.
Lionel Messi eftir úrslitaleikinn. Vísir/EPA
Lionel Messi er enn ekki búinn að vinna titil með argentínska landsliðinu og annað sumarið í röð þurfa hann og félagar hans í argentínska landsliðinu að sætta sig við silfur á stórmóti.

Lionel Messi tjáði sig á fésbókinni um tapið í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar en Argentína tapaði í vítakeppni á móti heimamönnum í Síle í gullleiknum um helgina.

„Ekkert er sársaukafullra en að tapa úrslitaleik. Ég vil samt ekki bíða lengur með að þakka ykkur öllum sem hafa stutt við bakið á okkur," skrifaði Lionel Messi.

Lionel Messi vann þrennuna með Barcelona á síðustu leiktíð og var það í annað skiptið sem liðið nær því.

Argentínska landsliðið hefur ekki unnið titil í 22 ár eða síðan liðið vann Suður-Amerkíkukeppnina árið 1993.

Messi var nú að taka þátt í Suður-Ameríkukeppninni í þriðja sinn og fá sitt annað silfur. Argentínska liðið tapaði 3-0 fyrir Brasilíu í úrslitaleiknum fyrir átta árum og datt út í átta liða úrslitunum árið 2011.

Lionel Messi afþakkaði verðlaunin sem besti leikmaður keppninnar en hann átti fína leiki sérstaklega í undanúrslitaleiknum þar sem að hann lagði upp fjögur mörk fyrir félaga sína í 6-1 sigur á Paragvæ.

Hann var kosinn bestur eftir tapið á móti Þýskalandi í úrslitaleiknum á HM í Brasilíu 2014 og var ekki í skapi til að taka við einn einum verðlaununum eftir tap í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×