Innlent

Merktu 19.046 fugla og bættu Íslandsmet

Svavar Hávarðsson skrifar
Allar merkingar á íslenskum fuglum falla undir talningarnar. 40 hafarnarungar voru merktir 2014.
Allar merkingar á íslenskum fuglum falla undir talningarnar. 40 hafarnarungar voru merktir 2014. Mynd/Gunnar Þór Hallgrímsson
Sett var met í fuglamerkingum á Íslandi árið 2014. Alls voru merktir 19.046 fuglar af 79 tegundum og eru það fleiri nýmerkingar á einu ári en nokkru sinni fyrr.

Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, annast umsjón með fuglamerkingum hérlendis, segir að merkingarstarfið sé að mestu leyti borið uppi af áhugafólki, þó talningar falli líka undir skipulögð verkefni. Met síðasta árs hvíli þungt á fjölda sjálfboðaliða, en 51 sendi inn skýrslu í fyrra. Sá stórtækasti, Sverrir Thorstensen á Akureyri, merkti 3.555 fugla í fyrra, en margir sem þessu starfi sinna hafa gert svo um áratugaskeið, segir Guðmundur.

Óskar J. Sigurðsson, kenndur við Stórhöfða, hætti merkingum á árinu. Óskar hóf merkingar árið 1953 og merkti á þeim 62 árum „sem hann handlék merkingatöngina“ um 93.000 fugla, sem er með ólíkindum segir Guðmundur, en mikil þekking fæst með merkingum fuglanna – margt fæst ekki öðruvísi þrátt fyrir nýjustu tækni.

Fuglar hafa verið merktir á Íslandi síðan árið 1921. Alls hafa verið merktir 668.144 fuglar af 153 tegundum, mest af snjótittlingi eða tæplega 80 þúsund fuglar.

Mest var merkt af auðnutittlingi í fyrra en þar á eftir komu snjótittlingar, skógarþrestir, kríur og rauðbrystingar. Tvær tegundir voru merktar í fyrsta sinn hér á landi; peðgrípur og mistilþröstur. Af 104 endurheimtum erlendra merkja voru 64 frá Bretlandseyjum, 24 frá Noregi, 10 frá Hollandi, tvö frá Frakklandi og Þýskalandi, eitt merki frá Svíþjóð og annað frá Ghana. Þetta er í fyrsta sinn sem merki frá merkingastöðinni í Ghana endurheimtist á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×