Erlent

Merkel: Um þrjú þúsund Írakar snúa aftur heim í hverjum mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel hefur ítrekað látið hafa eftir sér að hælisleitendum í landinu komi til með að fækka.
Angela Merkel hefur ítrekað látið hafa eftir sér að hælisleitendum í landinu komi til með að fækka. Vísir/AFP
Um þrjú þúsund Írakar snúa aftur frá Þýskalandi og heim til Íraks í hverjum mánuði og þeim fer fjölgandi.

Angela Merkel Þýskalandskanslari lét orðin falla í ræðu í Baden-Württemberg en kosningar fara fram í þremur sambandslöndum á sunnudag.

Sagði hún að sífellt fleiri Írakar snúi aftur til heimaslóðanna eftir því sem írakskar öryggissveitir hrekja fleiri vígamenn ISIS á brott.

Þá kjósi margir að snúa heim þegar þeir geri sér grein fyrir að langan tíma gæti tekið að fá fjölskyldu og ástvini til sín í Þýskalandi.

Merkel hefur ítrekað látið hafa eftir sér að hælisleitendum í landinu komi til með að fækka, en um 1,1 milljón hælisleitenda komu til Þýskalands á síðasta ári.

Kristilegi demókrataflokkurinn, flokkur kanslarans, hefur verið undir miklum þrýstingi vegna óánægju stórs hluta þýsks almennings með stefnu stjórnvalda í málefnum flóttafólks.

Skoðanakannanir benda til að hægriöfgaflokkurinn Alternativ für Deutschland muni hljóta allt að fimmtung atkvæða í kosningum sunnudagsins sem fram fara í Baden-Württemberg, Rínarlandi-Pfalz og Saxlandi-Anhalt.

Þá benda kannanir til að í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar verði kristilegir demókratar ekki stærsti flokkurinn í Baden-Württemberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×