Innlent

Menntaverðlaun Suðurlands til Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, ásamt Gunnari Þorgeirssyni, formanni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þær Hildur Þórsdóttir og Hjördís Skírnisdóttir, sem tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, ásamt Gunnari Þorgeirssyni, formanni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þær Hildur Þórsdóttir og Hjördís Skírnisdóttir, sem tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans. mynd/mhh
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson mætti á Selfoss síðdegis og afhenti Menntaverðlaun Suðurlands 2016 við hátíðlega athöfn á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.  Við það tækifæri afhenti forsetinn líka tvo peningastyrki til háskólanemenda úr Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands.

Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sem  veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem um leið er hvatning til frekari dáða. Að þessu sinni fóru verðlaunin til Framhaldsskólans í Austur – Skaftafellssýslu en  skólinn hefur unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum með nemendum sínum allt frá árinu 1990.

Nemendur skólans kynnast náttúrurannsóknum með vettvangsferðum, mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Rannsóknirnar snúa að jökulsporðum, framvindu gróðurs á Skeiðarársandi, viðgangi álftastofns í Lóni og fuglum í fólkvanginum Óslandi á Höfn.

„Skólinn er í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands og nemendur öðlast þannig mikilvæga þekkingu á náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem nýtist áfram í lífinu og frekari námi.  Það er mat úthlutunarnefndar að náttúrurannsóknir skólans eru einstakar á margan hátt og eiga ekki sinn líka á framhaldsskólastigi. Þær eru einstakt framlag til rannsóknarvinnu og kennslu á náttúrunni í nærsamfélagi skólans sem nýtist m.a. nemendum, fræðasamfélaginu og sögu lands og náttúru á Íslandi“, segir meðal annars í umsögn vegna verðlaunanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×