Enski boltinn

Meira en þúsund mínútur síðan að Torres skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Já, Fernando Torres, þetta er alveg óskiljanlegt.
Já, Fernando Torres, þetta er alveg óskiljanlegt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fyrir ári síðan keypti Chelsea Fernando Torres á 50 milljón punda frá Liverpool og flestir héldu að Chelsea-menn væru að næla sér í einn besta markaskorara ensku úrvalsdeildarinnar.

Svo hefur þó ekki verið raunin ef marka má markaleysi Spánverjans í búningi Chelsea. Torres skoraði 9 mörk í 23 deildarleikjum með Liverpool á fyrri hluta síðasta tímabils en hefur aðeins skorað 3 mörk í 32 deildarleikjum á síðustu tólf mánuðum með Chelsea-liðinu.

Torres hélt upp á afmæli félagsskiptanna í gær með því að spila 90 mínútur á móti Swansea City án þess að skora. Þetta var sautjándi leikurinn í röð þar sem að hann kemst ekki á blað.

Nú er svo komið að Fernando Torres hefur ekki skorað mark í 1080 mínútur í öllum keppnum eða síðan að hann skoraði tvö mörk í 5-0 sigri á Genk í Meistaradeildinni 19. október síðastliðinn.

Síðasta deildarmark hans kom á móti Swansea City 24. september. Hann er ekki búinn að skora í ensku úrvalsdeildinni í 647 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×