Innlent

Meint handrukkun: Hótuðu að dreifa ósönnum sögum um kynferðisbrot ef hann greiddi ekki milljón

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. Vísir/Pjetur
Ríkissaksóknari hefur höfðað mál gegn karlmanni á sextugsaldri, karlmanni á fertugsaldri og konu á þrítugsaldri fyrir tilraun til fjárkúgunar norðan heiða. Akureyringunum þremur er gefið að sök að hafa reynt að hafa fé af manni með hótunum um að hann yrði beittur ofbeldi og borið á hann röngum sökum um kynferðisbrot ef hann greiddi konunni ekki fjármuni.

Hótanir þremenninganna, sem hafðar voru frammi á heimili mannsins, urðu til þess að maðurinn millifærði eina milljón króna af bankareikningi sínum inn á bankareikning konunnar. Millifærslan gekk hins vegar ekki eftir að því er segir í ákæru. Telst þessi hluti ákærunnar varða 251. grein almennra hegningarlaga.

Við sama tilefni, á heimili mannsins, eru þremenningarnir sakaðir um að hafa tekið VISA greiðslukort mannsins og haft á brott með sér. Telst brotið varða 245. grein almennra hegningarlaga. Í framhaldinu hafi þau framið fjársvik með því að hafa notað greiðslukortið til að svíkja út vörur að fjárhæð tæplega 40 þúsund krónur í Keiluhöllinni á Akureyri.

Þá fylltu þau á símaeignir og greiddu fyrir bensín daginn eftir með sama greiðslukorti fyrir samanlagt um 35 þúsund krónur.

Ákæruliðirnir að ofan eru hluti af stærri ákæru ríkissaksóknara þar sem þrír menn, þar á meðal sá á sextugssaldri í fyrrnefndum ákæruliðum, eru sakaðir um að hafa hótað löglærðum fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri, fara fram með ofbeldi gegn honum og leggja eld að bifreið hans í nóvember síðastliðnum.

Nánar um það mál hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×