Viðskipti innlent

Með níu þúsund á tímann allan sólarhringinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Meðlimir skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans eru í svipaðri stöðu og starfsbræður þeirra hjá Glitni því þeir tóku rúmlega sex milljónir króna á mánuði að meðaltali fyrir störf sín fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Þá réð skilanefndin sem framkvæmdastjóra mann sem Fjármálaeftirlitið hafði áður vikið úr skilanefndinni.

Skilanefndir og slitastjórnir föllnu bankanna hafa verið kallaðar hin nýja yfirstétt bankakerfisins. Á kröfuhafafundi slitastjórnar og skilanefndar Landsbankans á mánudag var greint frá því að verktakagreiðslur vegna starfa nefndarmanna fyrstu sex mánuði þessa árs næmu 189 milljónum króna.

Í skilanefnd Landsbankans sitja tveir menn, Lárentsínus Kristjánsson, sem er formaður og Einar Jónsson. Í slitastjórninni eru Herdís Hallmarsdóttir, Halldór H. Backman og Kristinn Bjarnason, sem er formaður. Öll eru þau lögmenn.

Verktakakostnaður þessara fimm einstaklinga miðað við þessa fjárhæð, 189 milljónir króna, vegna starfa sinna fyrir skilanefnd og slitastjón var því 6,3 milljónir króna á mann að meðaltali. Það gera rúmlega átta þúsund og fjögur hundruð krónur á tímann, allan sólarhringinn, fyrstu sex mánuði ársins.

Hjá skilanefndinni starfar líka Ársæll Hafsteinsson, lögfræðingur, sem framkvæmdastjóri en laun hans eru ekki inni í þessari tölu og í raun liggur ekki fyrir hversu há þau eru. Þess má svo geta að í ágúst á síðasta ári vék Fjármálaeftirlitið honum úr skilanefndinni m.a á þeirri ástæðu að hann væri einn af yfirmönnum gamla Landsbankans fyrir hrunið en skilanefndin réð hann þá sem starfsmann í kjölfarið.

Verktakakostnaður þessara fimm hjá slitastjórn og skilanefnd Landsbankans er ekki alveg jafn hár og hjá skilanefnd og slitastjórn Glitnis, en eins og fréttastofa greindi frá nýlega fengu nefndarmenn þar um sjö milljónir króna á mánuði fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Það þýðir að Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, fékk rúmlega 225 þúsund krónur á dag í verktakagreiðslur eða rúmlega níu þúsund krónur á tímann allan sólarhringinn þessa fyrstu þrjá mánuði ársins.










Tengdar fréttir

Skilanefnd og slitastjórn á ofurlaunum

Launakostnaður þrotabús Glitnis fyrstu þrjá mánuði þessa árs vegna 5 starfsmanna skilanefndar- og slitastjórnar nemur 103 milljónum króna. Það gera rúmlega tuttugu milljónir á mann, þar sem hver hefur að jafnaði um sjö milljónir króna á mánuði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×