Erlent

May fékk fimm mínútur til að ræða útgöngu Breta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, kemur til fundar við aðra leiðtoga Evrópusambandsins í Brussel
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, kemur til fundar við aðra leiðtoga Evrópusambandsins í Brussel Fréttablaðið/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fékk aðeins fimm mínútur til að gera leiðtogum annarra Evrópusambandsríkja grein fyrir áformum sínum um útgöngu Bretlands.

Á tveggja daga leiðtogafundi Evrópusambandsins í Brussel, sem hófst á fimmtudag og lauk í gær, vildu hinir leiðtogarnir lítið ræða við hana um þetta mál.

May hafði gert ráð fyrir því að ræða útgöngu Bretlands yfir hádegisverði á fimmtudag, en að sögn breska dagblaðsins The Independent var hún látin bíða þangað til klukkan var orðin eitt. Það var „löngu eftir að þjónarnir voru farnir að bíða eftir því að fá að taka diskana af borðunum“ er haft eftir sjónarvotti á fréttavef The Independent.

Þegar hún lauk svo máli sínu eftir fimm mínútur, þá bað enginn hinna leiðtoganna um orðið til að svara henni.

Skýringin er sögð sú að formlegar viðræður um útgöngu Breta megi ekki hefjast fyrr en Bretar hafa virkjað 50. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins með því að óska formlega eftir útgöngu.

Það hefur Theresa May sagt að muni gerast í mars á næsta ári. Eftir það tekur við tveggja ára samningsferli, þar sem samið verður um skilmála útgöngunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×