Innlent

Matvæli hrein af hættulegri bakteríu

Svavar Hávarðsson skrifar
Reyktur og grafinn fiskur og unnin matvara var skoðuð.
Reyktur og grafinn fiskur og unnin matvara var skoðuð. nordicphotos/afp
Sjúkdómsvaldandi listería (Listeria monocytogenes) greindist ekki í einu einasta sýni sem starfsmenn Matvælastofnunar greindu í desembermánuði árin 2014 og 2015. Tekin voru sýni af reyktum og gröfnum fiski og ýmsum áleggstegundum.

Þetta kemur fram í frétt frá Matvælastofnun. Þar segir að listeriosis sé heiti sjúkdómsins sem bakterían veldur og eru matvæli tilbúin til neyslu algengasta smitleiðin. Hópsýkingar af völdum þessarar bakteríu eru þó ekki algengar en sýkingin er alvarleg og dánartíðni er há meðal þeirra sem veikjast.

Það eru einkum ónæmisbældir einstaklingar og fólk sem nær háum aldri sem getur sýkst. Einnig geta fóstur orðið fyrir skaða ef barnshafandi konur sýkjast af bakteríunni.

Tekin voru sýni úr 63 framleiðslulotum af reyktum og gröfnum fiski og ýmsum áleggstegundum svo sem skinku. Listeria monocytogenes greindist ekki í neinu sýnanna, en það er sú listeríutegund sem helst sýkir menn og dýr og sett hafa verið viðmið fyrir í reglugerð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×