Fótbolti

Markvörður Stjörnunnar hjálpaði Jamaíku að vinna Síle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Duwayne Kerr.
Duwayne Kerr. Vísir/Getty
Duwayne Kerr gat ekki verið með Stjörnunni í bikarleiknum á móti Víkingi Ólafsvík í vikunni af því að hann er upptekinn með landsliði Jamaíka sem er á leiðinni í Ameríkukeppnina í næsta mánuði.

Duwayne Kerr spilaði seinni hálfleikinn í nótt þegar Jamaíka vann 2-1 útisigur á Síle í vináttulandsleik í Vina del Mar. Clayton Donaldson og Joel Grant skoruðu mörkin.

Jamaíka var 1-0 yfir í hálfleik þegar Duwayne Kerr kom inná sem varamaður fyrir Ryan Thompson en hann spilar með Saint Louis í USL-deildinni í Bandaríkjunum.

Jamaíka komst síðan í 2-0 á 53. mínútu áður en Nicolás Castillo náði að skora hjá Duwayne Kerr átta mínútum fyrir leikslok. Kerr hafði áður fengið gula spjaldið á 60. mínútu leiksins.

Arsenal-maðurinn Alexis Sánchez lék allan leikinn með Síle en náði ekki að koma boltanum framhjá markverði Stjörnunnar.

Jamaíka er í riðli með Úrúgvæ, Mexíkó og Venesúela í Ameríkukeppninni og er fyrsti leikurinn á móti Venesúela 5. júní næstkomandi. Keppnin verður sýnd beint á Stöð 2 Sport.

Edinson Cavani, leikmaður Paris-Saint Germain, skoraði tvö mörk fyrir Úrúgvæ í 3-1 sigri á Trínidad og Tóbagó en þriðja markið skoraði Matías Vecino sem spilar með Fiorentina á Ítalíu. Luis Suarez er meiddur og spilaði ekki með Úrúgvæ í leiknum.

Gonzalo Higuaín heldur áfram að raða inn mörkum en hann tryggði Argentínu 1-0 sigur á Hondúras á 31. mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Manchester United manninum Marcos Rojo.  Gonzalo Higuaín setti markamet á Ítalíu á tímabilinu með því að skora 36 mörk fyrir Napoli. Lionel Messi lék fyrstu 64 mínúturnar í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×