Handbolti

Markaskorun Snorra kemur Ragnari ekki á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn skorar og skorar fyrir Sélestad.
Snorri Steinn skorar og skorar fyrir Sélestad. mynd/lnh.fr
Snorri Steinn Guðjónsson hefur farið hamförum með Sélestad í frönsku 1. deildinni í handbolta við upphaf tímabils, en íslenski leikstjórnandinn er markahæstur í deildinni með 53 mörk í sex leikjum.

Ragnar Óskarsson, fyrrverandi samherji Snorra í landsliðinu, segir þetta ekki koma sér á óvart, en Ragnar gerðist aðstoðarþjálfari Cesson-Rennes fyrir tímabilið og hefur fylgst með Snorra fara á kostum í Frakklandi.

„Hann var nálægt því að snúa aftur heim,“ segir Ragnar í viðtali við vefsíðu frönsku 1. deildarinnar.

„En hann ákvað að taka eina áskorun til viðbótar og hann hefur staðið sig mjög vel. Frammistaða hans hefur skipt sköpum fyrir Sélestad á tímabilinu.“

Snorri hefur spilað fyrir stórlið á borð við Rhein-Neckar Löwen og AG Kaupmannahöfn auk þess að stýra leik íslenska landsliðsins undanfarinn áratug. Það hefur borið minna á markaskorun hans síðustu ár, en Sélestad þarf meira á þeim að halda.

„Það kemur mér ekki á óvart að hann skori svona mikið. Með fullri virðingu fyrir Sélestad hefur Snorri verið að spila með betri liðum þar sem hann var meiri leiðtogi. Hjá Sélestad þarf hann meira að taka af skarið og skora. Hann er náttúrlega frábær leikmaður sem kann leikinn og er bæði mjög leikreyndur. Hann er líka frábær í hóp.“

„Við þekkjum hvorn annan mjög vel og mér finnst hann betri núna en undanfarin ár. Hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og hann á góð ár framundan,“ segir Ragnar Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×