Skoðun

Markaðssetning á netinu

Vilborg Aldís Ragnarsdóttir skrifar
Íslenskir netnotendur eru taldir vera með þeim virkustu í heiminum en yfir fjörutíu prósent landsmanna tengjast netinu með snjallsíma daglega. Það er því enginn vafi á að netið er orðið aðalsamskiptamiðill fólks nú á dögum. Í dag ætti því að vera frekar auðvelt að markaðssetja vöru sína eða þjónustu ef rétt er staðið að. Einn af kostum þess að markaðssetja fyrirtæki á netinu er sá að smærri fyrirtæki geta litið út fyrir að vera mun stærri á netinu en þau í raun eru.

Leitarvél er áhrifaríkt markaðstólKannanir hafa sýnt að Google er mest notaða leitarvél á Íslandi og hefur um áttatíu prósent markaðshlutdeildar. Nauðsynlegt er að beita réttri aðferð markaðssetningar í leitarvél sem getur auðveldlega aukið sýnileika vefsíðu fyrirtækis á niðurstöðusíum leitarvélar. Slík markaðssetning er afar mikilvæg fyrir allan atvinnurekstur sem selur vörur og þjónustu á netinu og því er mjög mikilvægt að vefsíða sem notast er við sé sjáanleg í leitarvélum.

Vefborðar geta aukið vörumerkjavitundEitt af öflugustu tólum í aukningu á vörumerkjavitund eru vefborðar en þeir eru meðal algengustu verkfæra sem fyrirtæki nota til að markaðssetja sig á netinu. Þeir geta verið allt frá staðlaðri auglýsingu í að vera nokkurra mínútna myndband. Með hjálp þeirra getur fyrirtæki átt auðveldara með að ná til fjölmiðla og fá fleiri viðskiptavini til þess að heimsækja netsíðu fyrirtækisins. Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar markaðssetja á vöru eða þjónustu á netinu. Það þarf að setja niður stefnumótun og skýr markmið og framkvæma markhópagreiningu og þarfagreiningu. Einnig er gott að kynna sér markaðsrannsóknir um hvernig auglýsingaherferð sé best að gera. Þessi atriði þurfa að vera á hreinu áður en viðmót vefsins er hannað og besta leiðin til að ná sem bestum árangri er klárlega að ráðfæra sig við sérfræðinga sem þekkja vel til.

SamfélagsmiðlarÞað er ekki óalgengt að fyrirtæki sem nýta sér samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter séu líklegri til þess að hafa betri innsýn í huga viðskiptavina vegna þeirra mikilvægu upplýsinga sem liggja innan samfélagsins. Á þessum miðlum myndast oft nytsamlegar samræður sem þau fyrirtæki sem eru með tengsl innan miðlanna nýta sér til að komast til móts við þarfir neytenda. Tækifærin til markaðssetningar leynast víða og segja má að það séu ógrynni af möguleikum sem liggja fyrir. Ef ímyndunaraflinu er sleppt lausu þá eru allir vegir færir.




Skoðun

Sjá meira


×