Innlent

Mangó með bjöllum í morgunmat: Erla reiknar ekki með því að borða mangó í bráð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Erla náði þessum myndum af skordýrunum, rétt áður en hún fleygði þeim í ruslið.
Erla náði þessum myndum af skordýrunum, rétt áður en hún fleygði þeim í ruslið. vísir/erla
Það var ófögur sjónin sem blasti við Erlu Gísladóttur þegar hún hugðist gæða sér á ljúffengu mangói í morgunsárið. Úr ávextinum komu tvær lifandi pöddur, líklega ranabjöllur af afrískum uppruna.

„Ég ætlaði að reyna að kremja pödduna með hnífnum en hún var hörð og lokaði sér bara. Ég leit svo á mangóið og sá að önnur var byrjuð að skríða og þá eiginlega panikkaði ég bara, henti mangóinu í poka og út í rusl,“ segir Erla í samtali við Vísi.

Erla segist ekki gera sér grein fyrir hvers konar skordýr hafi verið um að ræða, en telur líklegt að þetta hafi verið bjöllur. Af myndum að dæma má gera ráð fyrir að þetta sé Mango seed weevil, sem er tegund af ranabjöllum, um átta millimetrar að lengd og fjórir millimetrar á breidd.

Hún segir þó ekkert að ekkert sé við verslunina, sem mangóið var keypt í, að sakast, því eftir lestur um kvikindin sé þetta algengt í framandi ávöxtum.

„Manni brá dálítið, ég verð að viðurkenna það," segir Erla og bætir við að hún sé ekki allskostar viss um að hún muni bragða á mangói í bráð.

Erla náði skordýrunum á myndband en það má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×