Enski boltinn

Manchester United kaupir Fílabeinsstrending á 30 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Bailly getur hoppað eins og hann sýnir hér í baráttu við Cristiano Ronaldo.
Eric Bailly getur hoppað eins og hann sýnir hér í baráttu við Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Jose Mourinho, nýr knattspyrnustjóri Manchester United, er búinn að kaupa sinn fyrsta leikmann eftir að hann tók við á Old Trafford. Sá er 22 ára varnarmaður frá Villarreal.

Enskir miðlar segja frá því að Manchester United kaupi Fílabeinsstrendinginn Eric Bailly á um 30 milljónir punda eða um 5,4 milljarða íslenskra króna. BBC er einn þeirra miðla.

Eric Bailly fer í læknisskoðun í þessari viku og þá er hægt að ganga endanlega frá kaupunum er félögin eru búin að koma sér saman um kaupverð.

Villarreal er að græða vel á Eric Bailly á aðeins átján mánuðum en það keypti miðvörðinn á 4,4 milljónir frá Espanyol í janúar 2014. Hagnaður Villarreal eru því um 25 milljónir punda eða 4,4 milljarðar íslenskra króna.

Eric Bailly er 187 sentímetra miðvörður sem hefur þegar spilað fimmtán landsleiki fyrir Fílabeinsströndina og varp Afríkumeistari með liðinu 2015. Bailly á að baki 40 leiki í spænsku úrvalsdeildinni þar af 25 þeirra á nýloknu tímabili.

Eric Bailly lék mjög vel með liði Villarreal í vetur en liðið tryggði sér meðal annars sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Bailly er mjög sterkbyggður leikmaður sem lætur finna vel fyrir sér og er öflugur skallamaður.

Hann er þó ekki fullskapaður leikmaður og á enn eftir að læra mikið áður en hann verður heimsklassa miðvörður. Líkamlegu hæfileikarnir munu allavega ekki standa í vegi fyrir honum á þeirri leið því hann er bæði hraustur og fljótur.

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic verður mögulega leikmaður númer tvö sem Jose Mourinho fær til United-liðsins en hvorki Zlatan né United hafa staðfest þann þráláta orðróm.



Eric Bailly í kapphlaupi við Liverpool-leikmanninn Roberto Firmino í Evrópuleik.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×