Innlent

Málið orðið flóknara en áður

Ólafur þór Hauksson
Ólafur þór Hauksson
„Nýjar upplýsingar hafa komið fram í rannsókninni á Kaupþingi. Það gerist þegar mál ganga lengra og fleira kemur í ljós. Það er nú orðið stærra og flóknara," segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari um rannsóknina á meintum brotum stjórnenda Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins.

Ólafur vill að öðru leyti ekki tjá sig um gögnin en bætir við að eðlilegt sé að ný gögn berist í málum á borð við Kaupþingsrannsóknina. „Þegar rifið er ofan af einhverju kemur alltaf eitthvað í ljós. Málin hafa tilhneigingu til að vinda upp á sig," segir hann.

Þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings voru í byrjun maí handteknir, úrskurðaðir í gæsluvarðhald, og síðar í farbann ásamt fjórða manni, í tengslum við rannsókn á meintum brotum þeirra. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sinnti ekki kvaðningu sérstaks saksóknara að koma í yfirheyrslur vegna málsins. Handtökuskipun var gefin út á hendur honum í kjölfarið. Sigurður hefur enn ekki sinnt kvaðningunni, segir sérstakur saksóknari.

„Þetta er ekki óþekkt í rannsókn á sakamálum," segir Ólafur, en bætir við að embættið hafi ákveðnar leiðir til að ná í menn. - jab



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×