Innlent

Mál Müller til ákæruvaldsins

Séra Georg er einnig sakaður um ofbeldi.
Séra Georg er einnig sakaður um ofbeldi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er búin að rannsaka kynferðisbrot, sem beinist að Margréti Müller heitinni, þegar hún var kennari við Landakotsskóla. Málið hefur verið sent ákærusviði að sögn Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Lögreglunni barst kæra um áramótin og lauk rannsókn fyrir skömmu. Nú er það ákæruvaldsins að ákveða framhaldið.

Margrét svipti sig lífi árið 2008 þegar hún kastaði sér úr turni Landakotsskóla, þar sem hún bjó. Samkvæmt Björgvini beinist rannsóknin einnig að Landakotsskóla og Kaþólsku kirkjunni. Því er ekki sjálfgefið að málið verði látið niður falla þrátt fyrir að Margrét sé látin.

Það var Fréttatíminn sem greindi frá því fyrir helgi að Margrét hefði beitt tvo menn andlegu og kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru nemendur við skólann. Frásögn mannanna er sláandi. Annar þeirra lýsir hryllilegu kynferðislegu ofbeldi sem hann varð fyrir að hálfu Margrétar og hollenska prestsins, séra Georgs.

Þess má geta að landi Georgs, Johannes Gijsen, sem var kaþólskur biskup á Íslandi frá 1996, var borinn þungum sökum um kynferðislega misnotkun í hollenskum miðlum í september á síðasta ári. Hann fór af landi brott ári áður en Margrét svipti sig lífi, eða 2007.

Kynferðisofbeldið sem hann var sakaður um á að hafa átt sér stað þegar hann var kennari í kaþólskum skóla í Hollandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Nafn hans hefur hinsvegar ekki verið nefnt í tengslum við kynferðisofbeldið sem greint var frá í Fréttatímanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×