Innlent

Makrílviðræðum lauk án árangurs

„Vonandi verður sterk ganga makrílsins í sumar til þess að sannfæra hina aðilana frekar um það að sú hlutdeild sem við erum að fara fram á er sanngjörn."
„Vonandi verður sterk ganga makrílsins í sumar til þess að sannfæra hina aðilana frekar um það að sú hlutdeild sem við erum að fara fram á er sanngjörn."
Makrílviðræðum Íslendinga, Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja og Rússlands lauk í dag án árangurs. Aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum segir það vonbrigði.

Samninganefndir þjóðanna hafa síðan á þriðjudag fundað á Hótel Sögu og reynt að ná samkomulagi um það hversu mikið hver og ein þjóð megi veiða af makríl á þessu ári. Viðræðunum lauk síðdegis án árangurs.

„Það eru mikil vonbrigði. Það er alveg ljóst að það er töluverð ofveiði úr stofninum eins og sakir standa. Það næst ekki samkomulag þannig að aðilar setja sér kvóta hver fyrir sig. Samanlagt nema kvótarnir rúmlega 900 þúsund tonnum en ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins er 640 þúsund tonn," sagði Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í makrílviðræðum.

Þegar ljóst var að hver og ein þjóð myndi að halda sínum striki. Þá lögðu Íslendingar til að allir veiddu 30% minna þetta árið til að draga úr ofveiði. Ekki var fallist á það. Búist er við að reynt verði að halda samningaviðræðum áfram næsta haust.

„Það er náttúrulega hætt við því að ef að þessi ofveiði heldur áfram að það bitni á stofninu og það munu náttúrulega allir aðilarnir tapa á því. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda áfram tilraunum til að ná samkomulagi," sagði Tómas.

Tómas vonast til að Íslendingar verði þá jafnvel í sterkari stöðu.

„Vonandi verður sterk ganga makrílsins í sumar til þess að sannfæra hina aðilana frekar um það að sú hlutdeild sem við erum að fara fram á er sanngjörn."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×