Innlent

Makríllinn fer í kvótakerfi á næsta ári

Heimir Már Pétursson skrifar
Makríll verður settur í kvótakerfi á næsta ári og verða heimildirnar miðaðar við aflareynslu skipa og verða með frjálsu framsali, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra.

Makrílveiðar Íslendinga hafa aukist ár frá ári undanfarin ár. Á þessu ári veiddu íslensk skip um 123 þúsund tonn,  sem eru ríflega 20% af ráðlögðum afla fiskifræðinga.

Hingað til hefur ráðherra gefið út heildaraflamark en á næsta ári verður breyting þar á. Sjávarútvegsráðherra segir það í samræmi við „samningaleiðina“  í sjávarútvegi sem stjórnarflokkarnir vinni að og styðst við aflahlutdeildarkerfi, líka í makrílnum.

„Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að komin sé nægjanleg reynsla á makrílveiðarnar og þar með lagaleg skylda,  hvort sem er samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eða úthafsveiðilögunum,  að fara þessa leið. Og við erum að skoða það í ráðuneytinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

Stefnt sé að því að setja sérstök lög um makrílveiðarnar fyrir vertíðina á næsta sumri, en mjög ólík skip af stærð og veiðigetu hafa veitt makrílinn undanfarin ár, frá hafi upp í fjöruborð nánast.

„Þar verður auðvitað tekið tillit,  eins og hefur alltaf verið gert, til veiðireynslu,  verðmætasköpunar og væntanlega einhverra fleiri þátta,  sem við höfum verið að leita eftir samráði við útgerðarmenn jafnt stórra sem smærri útgerða í landinu um. Ég vonast til að finna ásættanlega lausn sem flestir geta sætt sig við,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðherra segir makrílinn fara í sama kerfi og aðrar fisktegundir, þannig að veiðiheimildir verði framseljanlegar.

„Sem hefur sýnt sig að vera gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt og mörg önnur ríki horfa með aðdáunar- og öfundaraugum til okkur hvað það varðar,“ segir sjávarútvegsráðherra.

Líklega verði miðað við bestu þrjú veiðiár skipa á sex ára tímabili ásamt fleiri þáttum við úthlutun aflaheimildanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×