Viðskipti innlent

Magnús Ármann og Sigurður Bollason rannsakaðir

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Viðskiptafélagarnir Magnús Ármann og Sigurður Bollason eru meðal þeirra þrjátíu einstaklinga sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna notkunar á erlendum greiðslukortum hér á landi. Greiðslukort Magnúsar voru notuð fyrir allt að 40 milljónir á einu ári.

Undanfarna mánuði hefur ríkisskattstjóri skoðað notkun á greiðslukortum sem hafa verið gefin út erlendis og skuldfærð þar en notuð til úttektar hér á landi.

Ríkisskattstjóri vísaði málum 30 einstaklinga til skattrannsóknarstjóra. Bryndís Kristinsdóttir, skattrannsóknarstjóri, hefur staðfest við fréttastofu að rökstuddur grunur leiki á að þeir hafi nær allir komið verulegum upphæðum undan skattayfirvöldum á tímabilinu júlí 2006 til júní 2008.

Enn sé verið að afla gagna og til greina komi að skoða lengri tímabil en áður hefur verið gert. Líkur séu á að meirihluti málanna verði vísað til efnahagsbrotadeildar.

Dæmi voru um að einstaklingar væru með fleiri en eitt kort en alls eru 60 kort til rannsóknar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru viðskiptafélagarnir Magnús Ármann og Sigurður Bollason meðal þeirra sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra.

Magnús mun hafa haft fleiri en eitt kort í notkun og munu kort á hans nafni hafa verið notuð fyrir allt að 40 milljónir á einu ári. Enginn af þeim sem er til rannsóknar mun hafa notað kort sín í jafn miklum mæli. Ekki náðist í Magnús Ármann né Sigurð í dag.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×