Viðskipti innlent

Magma Energy eignast 98,5% hlut í HS Orku

Frá blaðamannafundnum í dag. Ross J. Beaty, stjórnarformaður og forstjóri Magma, sést hér fyrir miðju. Kaupverðið er um 16 milljarðar króna.
Frá blaðamannafundnum í dag. Ross J. Beaty, stjórnarformaður og forstjóri Magma, sést hér fyrir miðju. Kaupverðið er um 16 milljarðar króna.

Dótturfyrirtæki kanadíska jarðhitafyrirtækisins Magma Energy og Geysir Green Energy hafa náð samkomulagi um að Magma kaupi öll hlutabréf Geysis í HS Orku og verður Magma þar með aðaleigandi félagsins með 98% hlut.

Kaupverðið er um 16 milljarðar króna. Forsvarsmenn Magma ætla sér að efla starfsemi HS Orku til muna á næstu misserum og fá jafnframt til liðs við sig sterka kjölfestufjárfesta, t.d. íslenska lífeyrissjóði.

Í tilkynningu segir að samkomulagið felur í sér að Magma Energy Sweden AB, sem er að fullu í eigu Magma Energy Corp. sem skráð er í kauphöllinni í Toronto, eignist 52,3% hlut Geysis í HS Orku hf. og yfirtaki jafnframt nýlegar skuldbindingar Geysis um kaup á viðbótarhlutafé sem nemur 3% hlutafjár HS Orku.

Magma verður þar með langstærsti hluthafi félagsins með 98,53% hlut en aðrir hluthafar í HS Orku eru sveitarfélögin Garður, Grindavík, Reykjanesbær og Vogar - með samanlagt 1,47% hlut en skv. samþykktum HS Orku eiga hluthafar félagsins forkaupsrétt að viðskiptum með hluti í félaginu, í réttu hlutfalli við eignarhlut sinn.

Kaupverðið á hlut Geysis í HS Orku er um 16 milljarðar króna og verður það greitt með reiðufé og yfirtöku skuldabréfa. Hluti greiðslunnar getur þó verið í formi hlutabréfa í kanadíska móðurfélaginu. Eftir viðskiptin nemur heildarfjárfesting Magma í íslensku atvinnulífi samtals rúmum 32 milljörðum króna.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að hafa náð þessu samkomulagi og HS Orka er nú orðið flaggskip okkar í enn frekari sókn á sviði jarðhitanýtingar, bæði hér á Íslandi og á alþjóðavettvangi," segir Ross J. Beaty, stjórnarformaður og forstjóri Magma.

„Við stöndum frammi fyrir afar þýðingarmikilli uppbyggingu gufuaflsvirkjana hér á Suðurnesjum, s.s. stækkun Reykjanesvirkjunar og frekari rannsóknum og framkvæmdum til að efla atvinnuuppbyggingu, bæði svæðisbundið og á landsvísu. Við hyggjumst auka hlutafé HS Orku og höfum hug á að fá þar til liðs við okkur trausta kjölfestufjárfesta, t.d. íslenska lífeyrissjóði, til að tryggja að HS Orka geti hafist handa við nauðsynlegar framkvæmdir og rannsóknir því við viljum sýna Íslendingum að við ætlum að reka þessa starfsemi með langtímahagsmuni allra hlutaðeigandi að leiðarljósi."

Forstjóri Magma áréttar einnig að einn mesti styrkleiki HS Orku sé hin mikla þekking og reynsla á sviði jarðhitanýtingar sem starfsfólk fyrirtækisins og fagaðilar á Íslandi búi yfir. „Þetta eru mikil verðmæti sem munu nýtast Magma til enn frekari sóknar á alþjóðlegum mörkuðum."

Alexander K. Guðmundsson, forstjóri Geysis segir að með sölunni á HS Orku sé verið að fylgja ákvörðun stjórnar Geysis í þá átt að lækka skuldir félagsins með sölu eigna."Salan léttir verulega á skuldum Geysis og auðveldar félaginu til muna að styðja við aðrar eignir í eignasafninu."

Alexander fagnar því að traustur fjárfestir með getu til að tryggja og efla enn frekar starfsemi HS Orku til framtíðar hefur nú eignast félagið.

„Við höfum átt frábært samstarf við Magma í stjórn HS Orku undanfarna mánuði og ég er ánægður með þessi viðskipti. Ég veit að stjórn HS Orku verður í tryggum höndum og ég er þess fullviss að áfram verður haldið því þróunar- og uppbyggingarstarfi sem þegar hefur verið markað og byggir á þekkingu og reynslu frumkvöðlanna hjá HS Orku,"segir Alexander.

Alexander bendir jafnframt á að HS Orka hafi nýlega aukið eigið fé með framlagi frá eigendum sínum sem styrkti félagið verulega og gerir því kleift að ráðast í áframhaldandi uppbyggingu gufuaflsvirkjana á Suðurnesjum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×