Erlent

Mæta harðri mótspyrnu í Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Um hundrað þúsund menn berjast nú gegn ISIS í Mosul.
Um hundrað þúsund menn berjast nú gegn ISIS í Mosul. Vísir/AFP
Írakskir hermenn mæta sífellt öflugri mótspyrnu vígamanna Íslamska ríkisins í borginni Mosul. Vígamennirnir beita sjálfsmorðsárásum, leyniskyttum, handsprengjum og sprengjuvörpum til varnarinnar. Árásin á borgina hefur nú staðið yfir í rúman mánuð en minnst 56 þúsund íbúar hafa flúið heimili sín.

Talið er að um ein og hálf milljón manna búi í borginni.

Íslamska ríkið hefur haldið borginni frá sumrinu 2014 og er hún helsta vígi þeirra í Írak. Í Sýrlandi sækir bandalag Kúrda og Araba nú að borginni Raqqa, sem er eins konar höfuðborg ISIS.

ISIS-liðar höfðu þó marga mánuði til að undirbúa árásina á Mosul og hafa byggt þar umfangsmikið net ganga og komið fyrir gildrum og sprengjum víða. Þá höfðu forsvarsmenn ISIS kallað liðsauka til borgarinnar áður en árásin hófst.

Í samtali við CNN segir hershöfðinginn Bajat Mzuri að það muni taka marga mánuði að finna og aftengja allar sprengjurnar í borginni.

„Þeir koma þeim fyrir á vegunum, í húsum. Við frelsum þorp og finnum þær út um allt. Fólk er að koma aftur heim, opna hurð eða jafnvel ísskáp og sprengja springur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×