Innlent

Mælingar úr háloftunum sagðar skila nákvæmari veðurspám

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Loftbelg til veðurathuguna sleppt.
Loftbelg til veðurathuguna sleppt. Mynd/Veðurstofan
„Það hefur sýnt sig að villur í langtímaveðurspám eiga oft rætur sínar að rekja til háloftanna,“ segir Haraldur Ólafsson veðurfræðingur en Veðurstofa Íslands sleppti í gær loftbelg upp í háloftin sem ætlað er að mæla vind, hita, raka, loftþrýsting og ryk í um tuttugu kílómetra hæð.

Haraldur segir sambærilegar mælingar á ryki undanfarið hafa sýnt um tuttugu þúsund rykagnir í hverjum lítra lofts. „Þetta er töluvert mikið meira en í sambærilegri hæð yfir jörðu sunnar á hnettinum. Það staðfestir þann grun sem fyrir lá um að það væri fullt af ryki í háloftalægðinni sem er yfir norðurskautinu á veturna, og fimm til tíu sinnum meira en sunnar á hnettinum,“ segir Haraldur.

Þá segir hann koma fyrir að magn rykmengunar í veðurspálíkönum kunni að vera rangt með farið og það valdi skekkjum í langtímaveðurspám. Það gerist af því að rykagnirnar stöðva hluta af orku sólarinnar sem breytir hitastigi í háloftunum. Hitinn stýrir síðan vindakerfinu. Mæling á magni rykmengunar mun að sögn Haraldar hjálpa til við að skila nákvæmari veðurspám.

„Margt bendir til þess að þessar agnir séu þarna fastar og að þær geti hangið þarna árum saman,“ segir Haraldur og bendir á að meðal þess sem ýti undir þá tilgátu sé sú staðreynd að agnirnar séu þéttari en sunnar á hnettinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×