Enski boltinn

Maðurinn sem Kolbeinn fiskaði af velli kominn til Stoke

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martins Indi fagnar marki í leik með Porto.
Martins Indi fagnar marki í leik með Porto. vísir/epa
Stoke City lætur ekki sitt eftir liggja á lokadegi félagaskiptagluggans en félagið hefur kynnt tvo nýja leikmenn til leiks í dag.

Fyrr í dag var greint frá því að framherjinn Wilfried Bony væri kominn á láni frá Manchester City. Og nú fyrir skömmu var hollenski varnarmaðurinn Bruno Martins Indi kynntur sem nýr leikmaður Stoke.

Martins Indi kemur á eins árs lánssamningi frá Porto en Stoke á möguleika á að kaupa hann að tímabilinu loknu.

Martins Indi er hollenskur landsliðsmaður og var í bronsliði Hollendinga á HM 2014. Íslendingar muna kannski eftir honum frá leik Hollands og Íslands í undankeppni EM 2016 en hann var þá rekinn af velli eftir viðskipti við Kolbein Sigþórsson.

Undanfarin tvö ár hefur þessi öflugi varnarmaður leikið með Porto en hann er fæddur í Portúgal. Martins Indi er hins vegar alinn upp í Rotterdam og lék með Feyenoord áður en hann fór til Porto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×