Innlent

Lyfta biluð í húsi fyrir aldraða yfir jólin

Eva Bjarnadóttir skrifar
Sunnuhlíð
Sunnuhlíð VÍSIR/ANTON
Lyfta bilaði í íbúðarhúsi fyrir aldraða á aðfangadag og var ekki enn komin í gagnið síðdegis í gær. Húsið er á vegum Sunnuhlíðarsamtakanna í Kópavogi. Umsjónarmaður fasteigna segir að erfitt hafi reynst að finna orsök bilunarinnar.

Meirihluti íbúa hússins styðst við göngugrindur eða eru bundnir við hjólastól, að sögn aðstandanda. „Það er ansi bagalegt fyrir fólkið að komast ekki milli hæða yfir jólin. Systir mín mætti fjölskyldu á göngunum sem hafði flutt jólaveisluna á Sunnuhlíð, þar sem ekki var hægt að flytja viðkomandi íbúa niður stigann,“ segir Hjördís Jóhannsdóttir, en móðir hennar býr í húsinu. Dóttir Hjördísar var stödd í lyftunni þegar hún bilaði um fjögurleytið á aðfangadag.

Matsalur íbúa er á neðstu hæð hússins. „Móðir mín hefur staulast þetta með herkjum en hjá henni er bara einn stigi. Aðrir búa ofar,“ segir Hjördís, sem er ósátt við það hversu langan tíma hefur tekið að gera við lyftuna. „Ég hef ekki orðið vör við að neinn sinni þessu,“ segir hún.

Sæmundur Alfreðsson, umsjónarmaður fasteigna Sunnuhlíðar, segir það hafa tekið viðgerðamenn langan tíma að finna út hvað olli biluninni. Búist var við að lyftan kæmist í gagnið í gær. Sæmundur segir íbúana hafa orðið fyrir nokkrum óþægindum, en reynt hafi verið að komast til móts við þá, meðal annars hafi þeim sem ekki komust í matsalinn verið færður matur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×