Enski boltinn

Lukaku: Ég er ekki orðinn jafngóður og Suárez

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku fagnar marki gegn Middlesbrough.
Romelu Lukaku fagnar marki gegn Middlesbrough. vísir/getty
Romelu Lukaku, framherji Everton, viðrukennir að hann þarf að bæta ýmislegt í sínum leik ef hann ætlar að vera nefndur í sömu setningu og Börsungurinn Luis Suárez og aðrir bestu framherjar heims.

Belginn skoraði 18 mörk í 37 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en Everton endaði í ellefta sæti sem kostaði Roberto Martínez, knattspyrnustjóra liðsins, starfið.

Lukaku er á því að hann þurfi að eiga fleiri frammistöður þar sem hann hefur bein áhrif á gengi liðsins til framtíðar ef hann ætlar að vera talinn einn af þeim bestu.

„Ég þarf að vinna fleiri leiki með mörkum mínum ef ég ætla að ná Luis Suárez,“ segir Lukaku í viðtali við Sky Sports en eftir að fara rólega af stað á leiktíðinni setti Belginn þrennu gegn Sunderland á dögunum.

„Ég er það góður að ég skora mörk en ég þarf líka að búa til mörk. Agüero, Benzema og Lewandowski eru menn sem búa til mörk upp úr engu og það þarf ég að gera líka.“

„Ég er á séræfingum með Ronald Koeman þar sem ég er settur í aðstæður þannig allar hreyfingar mínar verði náttúrlegri í teignum. Ég hef getuna til að gera þetta en ég þarf að gera meira af þessu í leikjum,“ segir Romelu Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×