Handbolti

Löwen búið að finna arftaka Landins | Sjöstrand til Melsungen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Appelgren mun verja mark Rhein-Neckar Löwen á næstu leiktíð.
Appelgren mun verja mark Rhein-Neckar Löwen á næstu leiktíð. vísir/getty
Ljóst er að breytingar verða á markvarðasveit nokkurra liða í þýsku Bundesligunni í handbolta á næstu leiktíð.

Sem kunnugt er færir danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin sig um set frá Rhein-Neckar Löwen til Kiel, helstu keppinauta Ljónanna í toppbaráttunni.

Nicolaj Jacobson, þjálfari Löwen, hefur nú fundið arftaka Landins, en það er sænski markvörðurinn Mikael Appelgren sem hefur varið mark Melsungen frá árinu 2012. Appelgren, sem er 25 ára, skrifaði undir þriggja ára samning við Löwen.

Sjöstrand færir sig um set til Melsungen í sumar.vísir/getty
Til að fylla skarð Appelgrens hefur Melsungen samið við annan sænskan markvörð, Johan Sjöstrand, sem kemur frá Þýskalandsmeisturum Kiel.

Hinn 27 ára gamli Sjöstrand kom til Kiel frá Aalborg Håndbold í fyrra og hjálpaði liðinu að vinna þýska meistaratitilinn í vor.

Hann hefur einnig spilað með IFK Skövde HK í heimalandinu, Flensburg og Barcelona á ferlinum. Þá er Sjöstrand fastamaður í sænska landsliðinu, en hann mun verja mark liðsins á HM í Katar ásamt Mattias Andersson, markverði Flensburg.

Sjöstrand skrifaði undir þriggja ára samning við Melsungen sem situr í 6. sæti þýsku deildarinnar. Honum til halds og trausts á næsta tímabili verður Daninn Rene Villadsen sem kemur frá Eisenach sem leikur í næstefstu deild í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×