Erlent

Lokasekúndurnar í lífi tveggja ungra manna sem tóku skelfilega ákvörðun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Ég vona að myndbandið hafi áhrif á ungt fólk og sýni þeim hve hrikalegar afleiðingarnar geta verið af því sem virðist smávegis fíflaskapur,“ segir móðir Michaels.
"Ég vona að myndbandið hafi áhrif á ungt fólk og sýni þeim hve hrikalegar afleiðingarnar geta verið af því sem virðist smávegis fíflaskapur,“ segir móðir Michaels.
Síðustu sekúndurnar í lífi tveggja ungra manna sem létu lífið í hörðum árekstri voru teknar upp á myndband. Fjölskyldur mannanna hafa gefið leyfi fyrir því að myndbandið verði birt til áminningar og í von um að koma í veg fyrir að fleiri láti lífið af sömu völdum.

„Ég vona að myndbandið hafi áhrif á ungt fólk og sýni þeim hve hrikalegar afleiðingarnar geta verið af því sem virðist smávegis fíflaskapur,“ segir önnur móðirin.

Vinirnir Kyle Careford og Michael Owen, 20 og 21 árs gamlir, létust samstundis þegar rauð Renault Clio bifreið hafnaði á kirkjuvegg í Sussex á Englandi að morgni sunnudagsins 12. apríl síðastliðinn. Michael tók bílferðina upp á snjallsíma sinn en þeir voru á 145 kílómetra hraða á klukkustund.

Undir áhrifum og án bílprófs

Farsími Michael fannst undir tré nærri þeim stað þar sem bíllinn hafnaði á veggnum. Var síminn í nógu góðu ástandi til að myndbandið varðveittist. Það upplýsti að félagarnir höfðu neytt mikils magns uppáskrifaðra og ólöglegra lyfja sem eðli málsins samkvæmt gerði það að verkum að Kyle var í engu ástandi til að aka bílnum umræddan morgun. Þá var hann sömuleiðis reynslulaus ökumaður, án bílprófs og ekki tryggður til að aka bílnum sem var í eigu Michaels.

Í myndbandinu spjalla þeir félagarnir, hlæja og syngja en svo virðist sem Michael sé bókstaflega vera með Kyle í ökukennslu. Hámarkshraði í bænum er 50 km/klst en vinirnir voru sem fyrr segir á um 145 km/klst hraða.

Ungu mennirnir voru báðir í bílbeltum en létust engu að síður samstundis.

„Við ölum upp börn okkar og reynum að kenna þeim muninn á réttu og röngu. Við leiðbeinum, gefum þeim ráð í þeirri von að þau hlusti. En þegar þau verða fullorðinn verðum við bara að vona að þau taki réttar ákvarðanir,“ sagði Kat, móðir Michael, eftir að myndbandið var birt.

Drengirnir ábyrgir

„Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna drengirnir gerðu þetta en þeir eru ábyrgir fyrir ákvörðunum sínum þessa nótt.“

Kat segir að birtingu myndbandsins megi réttlæta með þeirri von um að það komi í veg fyrir að aðrir geri sömu mistök.

Myndbandið má sjá hér að neðan en það er ekki fyrir viðkvæma. Á þriðja milljón manns hafa horft á myndbandið á rúmum sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×