Erlent

Lögreglumaður tók "selfie“ á meðan maður reyndi sjálfsvíg

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá lögreglumanninn taka hina umdeildu mynd.
Hér má sjá lögreglumanninn taka hina umdeildu mynd. Mynd/Twitter
Yfirvöld í Tyrklandi rannsaka nú mál lögreglumanns sem ákvað að smella mynd af sjálfum sér þegar hann var staddur á brú sem maður hótaði að hoppa fram af. Þessi svokallaða „selfie“ gæti kostað lögreglumanninn starfið.

Lögreglumaðurinn var kallaður út í gær vegna þess að 35 ára gamall karlmaður hótaði að hoppa fram af Bosporus-brúnni. Þetta var í þriðja sinn sem maðurinn reyndi að taka eigið líf. Lögreglumenn reyndu að telja manninum, sem hótaði að stökkva, hughvarf en eftir þriggja klukkutíma viðræður stökk hann fram af. Lögreglumenn náðu honum upp úr Bosporus-sundinu og var hann þá að sögn þeirra enn á lífi. Hann lést eftir tilraunir til að bjarga lífi hans. Fallið var 64 metra hátt.

Málið hefur verið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum.

Rannsóknarnefnd á vegum lögregluyfirvalda í Istanbúl kannar nú mál lögreglumannsins. Vegfarandi sem var staddur á brúnni náði mynd af lögreglumanninum, þegar hann tók hina umdeildu „selfie“. Málið hefur vakið athygli á samskiptamiðlum og telja margir að lögreglumaðurinn hafi brotið á sér með því að taka þessa mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×