Innlent

Lögreglan sótti Bengalketti Ólafs í hús í Reykjavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir
Bengalkettirnir Ísa­bella Sól­ey, Plat­in­um Prince og Kysstu Lífið Lukka sem stolið var úr skemmu við bæinn Nátthaga í Ölfusi þann 21. janúar eru komnir í leitirnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sótti kettina þrjá í ónefnt hús í Reykjavík í kvöld. Eigandi kattanna, Ólafur Sturla Njálsson, fékk í kjölfarið símtal frá lögreglunni þar sem honum var tilkynnt að kettirnir væru heilir á húfi.

„Ég vil ekki gera fólkinu refsingu,“ segir Ólafur Sturla í færslu á Fésbók. Hann segist ekki einu sinni vita hvað fólkið heiti.

„Ég bið almættið um að senda því frið í hjarta og hug. Og að það megi finna hamingjuna innra með sér.“

Sjá einnig:Ólafur átti erfitt með að tjá tilfinningar sínar

Greinilegt er að tíðindin voru óvænt enda sagði Ólafur Sturla síðast í dag í samtali við Vísi að ekkert væri að frétta af leitinni.

Ólafur segir kettina hafa verið svanga og hvekkta, sérstaklega læðurnar.

„En ég má halda á þeim öllum og þau þekktu mig strax.“

Ólafur Sturla biður fólk um að sleppa getgátum og slæmri umræðu um þjófana. Betra sé að senda þjófunum góða strauma og birtu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×