Innlent

Lögreglan handsamaði kóp á tjaldsvæðinu í Laugardal

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Selurinn sem um ræðir í fréttinni og þessi hérna eru náfrændur.
Selurinn sem um ræðir í fréttinni og þessi hérna eru náfrændur. vísir/vilhelm
Lögreglan í Reykjavík fékk heldur óvenjulegt útkall skömmu eftir klukkan sex í morgun er tilkynnt var um sel á tjaldsvæðinu í Laugardal. Spurning er hvort kom lögreglumönnunum meir á óvart, það að fá útkallið eða að sjá spriklandi sel á tjaldsvæðinu er þangað var komið.

Selurinn reyndist vera kópur sem sloppið hafði úr Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Ferðamenn fundu hann þar sem hann var á morgungöngu um tjaldsvæðið.

Kópurinn virtist frelsinu feginn og reyndi sem mest hann gat að sleppa undan lögreglumönnunum sem þó handsömuðu hann á endanum. Honum var skilað til síns heima á nýjan leik og óvíst að honum verði hleypt í fleiri bæjarferðir á næstunni. Kópurinn náði að bíta einn lögreglumann sem leitaði sér aðhlynningar á slysadeild.

Nóttin nokkuð róleg hjá lögreglunni að undanskyldum nokkrum minniháttar brotum. Fimm voru stöðvaðir fyrir ölvunarakstur og ein tilraun til innbrots var kæfð í fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×