Innlent

Lögleg lyf í þeim sem deyja vegna eitrana

Svavar Hávarðsson skrifar
Fólk er eindregið hvatt til að láta ekki lyf liggja á glámbekk.
Fólk er eindregið hvatt til að láta ekki lyf liggja á glámbekk. Vísir/Hari
„Krakkarnir sem eru í neyslu þekkja þetta allir. Við erum að sjá mikið af þessum lyfjum í umferð,“ segir Funi Sigurðsson, forstöðumaður á Stuðlum – meðferðarheimili fyrir unglinga, um lögleg lyf sem misnotuð eru af börnum og unglingum. Svo algengt er að þessi hópur komist yfir ávísuð lyf og misnoti þau að forsvarsmenn á Stuðlum sáu ástæðu til að senda Embætti landlæknis sérstaka ábendingu þar um nýlega.

Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, en embættið hefur eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja, tekur undir hversu alvarleg staðan er. Stærsta áhyggjuefni embættisins þessa dagana séu sterk verkjalyf sem skapa mikla hættu fyrir einstaklinga með alvarlega fíkn.

„Bæði hefur magn ávísaðra verkjalyfja aukist hér á landi og svo erum við að sjá þessi lyf í sýnum einstaklinga sem látist hafa vegna eitrana. Það er sorglegt þegar ungir einstaklingar leiðast út í svona hættulega misnotkun með skelfilegum afleiðingum. Þetta er umhugsunarvert þegar orsök dauðsfalla eru lögleg lyf sem þeir komast í með ýmsum hætti,“ segir Ólafur en bætir jafnframt við að það sé ekki einfalt að finna uppsprettu lyfjanna og þar togist á raunveruleg veikindi fólks og misnotkun á kerfinu hjá fólki sem gerir sér upp veikindi.

Funi segir að upplýsingagjöf varðandi börn og unglinga verði að bæta; ekki síst til foreldra. „Ég held að lyfin séu mest að koma frá krökkum til krakka. Lyfjum er stolið í heimahúsum þar sem þau liggja á glámbekk, þótt allur gangur sé á því hvernig þau komast yfir þau. Dæmi er líka um að krakkarnir eru að selja lyfin sín á milli. Þetta sést greinilega á síðum, t.d. á Facebook, þar sem verið er að höndla með þessi lyf og þeim er haldið úti af ungu fólki,“ segir Funi.

Hann bætir við að ímynd þessara lyfja sé að þau séu á einhvern hátt hreinni – enda framleidd hjá viðurkenndum lyfjafyrirtækjum. Mikið ber á lyfjum eins og rítalíni og concerta, sem notuð eru til að meðhöndla einkenni ADHD, en aðgengið að þeim lyfjum er mest. Fleiri lyfjaflokka er þó um að ræða.

„Þau telja sér trú um það að þetta sé skárra, en þessi lyf fara jafn illa eða verr með þau,“ segir Funi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×