Lífið

Lofa klukkutíma hláturskasti

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Strákarnir á æfingu leikritsins sem frumsýnt verður í kvöld.
Strákarnir á æfingu leikritsins sem frumsýnt verður í kvöld.
Leikritið Heili, hjarta, typpi verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði í kvöld.

Handritshöfundar eru þeir Auðunn Lúthersson og Ásgrímur Gunnarsson, og leika þeir báðir í verkinu ásamt Gunnari Smára Jóhannessyni.

Leikritið fjallar um þrjá handritshöfunda í tilvistarkreppu en hugmyndin af því kom í sumar, þegar þeir unnu saman í skapandi störfum hjá Hafnarfjarðarbæ. „Við vorum að tala um að okkur langaði að skrifa handrit, en gátum engan vegin komist að niðurstöðu hvert þemað ætti að vera. Ég vil meina að ég sé heilinn á bakvið það, svona klári gaurinn,“ segir Auðunn. „Ásgrímur er klárlega hjartað, hann vildi hafa þetta svo væmið. Síðan er Gunnar, hann vildi hafa þetta sexý svo hann er typpið í hópnum.“ Auðunn segir leikritið ansi spaugilegt og lofar áhorfendum klukkutíma hláturskasti.

Leikstjóri verksins er Björk Jakobsdóttir en í fyrra leikstýrði hún sýningunni Unglingurinn, sem sló í gegn. „Unglingurinn höfðaði meira til yngri hóps, en Heili, hjarta, typpi fjallar um aldurinn eftir menntaskóla og óvissuna sem þá tekur við. Það hefur vantað gott leikhús fyrir þennan aldurshóp, það eru alltaf barnaleikrit og svo bara háalvarleg verk fyrir eldri. Nú erum við hinsvegar að sjá unga fólkið draga foreldrana í leikhús sem er æðislegt,“ segir Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×