Innlent

Lofa fyrsta flokks skemmtun í Hörpu

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Tónlistarhúsið Harpa iðaði af lífi í dag þegar meðlimir London Philharmonic Orchestra hituðu upp fyrir tvenna stórtónleika í kvöld og á morgun. Stjórnandinn lofar fyrsta flokks skemmtun.

Andrúmsloftið var rafmagnað baksviðs í Hörpu í dag þegar sjötíu og tveir meðlimir London Philharmonic Orchestra komu saman til æfinga. Sinfóníuhljómsveitin þykir ein sú besta í heimi en hún var stofnuð árið nítján hundruð þrjátíu og tvö hefur síðan skapað sér orðspor sem framsækin og ævintýragjörn sveit.

Um stórviðburð er að ræða í íslensku tónlistarlífi og verða þessir tónleikar vafalaust með hápunktum tónlistarársins.

Gestastjórnandinn er Íslendingum góðu kunnur. Osmo Vanska var um árabil aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Þetta er ein merkasta hljómsveit í heimi,“ segir Osmo, stjórnandi. „Það er alltaf ánægjulegt að vinna með henni.“

Einleikari verður norski píanósnillingurinn Leif Ove Andsnes sem nýlokið hefur við að hljóðrita alla píanókonserta Beethovens en hann hefur áður tekið höndum saman við Osmo.

„Beethoven kemur alltaf á óvart. Hann tekur mann kverkataki og segir: Hlustaðu. Ég hef nokkuð mikilvægt fram að færa. Og það er ekkert kurteisishjal, það snýr að kjarna hlutanna,“ segir Leif Ove Andsnes.

„Ég spilaði með Osmo Vänskä, með annarri hljómsveit, sama verk fyrir 15 árum. Svo nú vona ég að við komum öll saman. Ég hlakka svo til tónleikanna í þessum stórkostlega sal.“

Meistari Beethoven verður áberandi á tónleikunum og Leif og Osmo lofa stórkostlegri skemmtun.

„Ég vonast til að ná einstökum flutningi á þessu stórkostlega verki, fimmta píanókonsert Beethovens, sem gefur svo mikla tilfinningu fyrir frelsi og manngæsku,“ segir Leif að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×