Enski boltinn

Liverpool með fleiri stig á móti góðu liðunum en slöku liðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane og Roberto Firmino.
Sadio Mane og Roberto Firmino. Vísir/Getty
Liverpool vann sannfærandi 2-0 sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina og liðsmönnum Liverpool tókst þar með loksins að landa deildarsigri á árinu 2017.

Liverpool hafði aðeins náð í samtals þrjú stig í fyrstu fimm leikjum ársins og hafði meðal annars tapað tvisvar á stuttum tíma á móti liði í fallsæti.

Sigurinn á Spurs kom Liverpool aftur upp í Meistaradeildarsæti en það gæti reyndar breyst aftur í kvöld þegar Manchester City heimsækir Bournemouth

Það hefur verið áður fjallað um árangur Liverpool-liðsins á móti sex bestu liðum deildarinnar en liðið hefur enn ekki tapað leik á tímabilinu á móti liðum inn á topp sex.

Það er hægt að fara lengra niður töfluna því Liverpool hefur enn ekki tapað leik á móti liði sem er í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar eins og staðan er í dag.

Liverpool hefur spilað einum leik færra á móti liðum í efri hluta (12) en liðum í neðri hluta (13) er engu að síður með fleiri stig á móti betri liðunum (26) en verri liðunum (23).

Liverpool er að fá 2,2 stig að meðaltali á móti liðum í efri hluta en aðeins 1,8 stig í leik á móti tíu neðstu liðunum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir gengi Liverpool-manna í leikjunum á móti bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.



Leikir Liverpool á móti efri hluta deildarinnar:

1. Chelsea

    - 1-1 jafntefli á heimavelli (1 stig)

    - 2-1 sigur á útivelli (3 stig)

2. Tottenham Hotspur

    - 2-0 sigur á heimavelli (3 stig)

    - 1-1 jafntefli á útivelli (1 stig)

3. Arsenal

    - 4-3 sigur á útivelli (3 stig)

4. Liverpool

5. Manchester City

    - 1-0 sigur á heimavelli (3 stig)

6. Manchester United

    - 0-0 jafntefli á heimavelli (1 stig)

    - 1-1 jafntefli á útivelli (1 stig)

7. Everton

    - 1-0 sigur á útivelli (3 stig)

8. West Bromwich Albion

    - 2-1 sigur á heimavelli (3 stig)

9. Stoke City

    - 4-1 sigur á heimavelli (3 stig)

10. West Ham

    - 2-2 jafntefli á útivelli (1 stig)



Gegn efstu tíu liðunum

26 stig í 12 leikjum

7 sigrar, 5 jafntefli, 0 töp

2,2 stig að meðaltali í leik

0,9 mörk fengin á sig í leik



Gegn neðstu tíu liðunum

23 stig í 13 leikjum

7 sigrar, 2 jafntefli, 4 töp

1,8 stig að meðaltali í leik

1,5 mörk fengin á sig í leik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×