Viðskipti innlent

Lítið þarf til að sveifla gengi krónunnar upp og niður

Mikil veiking á gengi krónunnar hefur komið mönnum á óvart einkum vegna þess að flæði ferðamannagjaldeyris til landsins hefur aldrei verið meira. En veikingin á sér eðlilegar skýringar.

Sú helsta er að vegna hafta og strangra takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum er markaðurinn svo grunnur að lítið þarf til að sveifla krónunni í sitthvora áttina.

Enn eitt metið í fjölda ferðamanna var slegið í sumar og um leið styrktist gengi krónunnar myndarlega fram í miðjan ágústmánuð. Eftir það fór gengið að gefa verulega eftir þótt að ferðamannastraumurinn væri enn öflugur. Þannig má segja að fjöldi ferðamanna í september sé álíka og hann var í sumarmánuði fyrir tveimur árum síðan.

Þann 10. ágúst s.l. kostaði evran ríflega 146 krónur. Í dag kostar hún tæplega 157 krónur sem er veiking um 6% á einum mánuði.

Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir að á móti ferðamannagjaldeyrinum komi síðan þær greiðslur í gjaldeyri úr landinu sem leyfilegar eru. Í ágúst hafi farið saman um 1,5 milljarðar kr. í vaxtagreiðslur til erlendra fjárfesta úr stórum ríkisbréfaflokki og uppgreiðsla Reykjanesbæjar á síðasta erlenda láninu sínu upp á um 800 milljónir kr. Jón Bjarki segir að eflaust megi nefna fleiri slíkar greiðslur. Þá megi nefna að þeir sem þurfa að greiða af erlendum lánum sínum geta fengið gjaldeyri til slíks með töluverðum fyrirvara.

Jón Bjarki bendir á að þar sem árstíðabundin uppsveifla á gengi krónunnar að sumri sé orðin staðreynd nýti menn sem þurfi að greiða af erlendum lánum sér það til að kaupa gjaldeyri þegar gengið er hvað sterkast og noti svo til að greiða af lánunum síðar. Á móti kemur að þessi kaup ættu að jafna út niðursveiflu krónunnar á komandi vetri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×