Lífið

Listamenn og skapandi hópar hvattir til að sækja um í Menningarnæturpottinn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fjöldi fólks gerir sér ferð í bæinn á Menningarnótt. Í fyrra er talið að um 120 þúsund hafi haldið í miðbæ Reykjavíkur.
Fjöldi fólks gerir sér ferð í bæinn á Menningarnótt. Í fyrra er talið að um 120 þúsund hafi haldið í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Andri Marinó
Fyrir Menningarnótt í ár leggja Höfuðborgarstofa og Landsbankinn áherslu á að styrkja verkefni sem hverfast í kringum Grandasvæðið við gömlu höfnina í Reykjavík. Hátíðin verður haldin í 21. skipti þann 20. ágúst næstkomandi.

Um þessar mundir auglýsa Höfuðborgarstofa og Landsbankinn eftir umsóknum í svokallaðan Menningarnæturpott sem veitir styrki á bilinu 50 þúsund til 250 þúsund til einstaklinga og hópa. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí á vef hátíðarinnar. Ekki er skilyrði að viðburðirnir tengist Grandasvæðinu. Landsbankinn veitir sem samsvarar þremur milljónum króna til Menningarnætur og þeir fjármunir renna til listamanna og skapandi einstaklinga eða hópa sem koma fram á Menningarnótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Menningarnótt hefur fest sig í sessi sem ein helsta hátíð Reykjavíkur en á síðasta ári er talið að um 120.000 gestir hafi lagt leið sína í miðborgina þennan dag. Menningarnótt fer fram á torgum og götum, í bakgörðum og söfnum, í fyrirtækjum og heimahúsum. Yfirskrift hátíðarinnar er „gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Menningarnótt er þátttökuhátíð sem byggir á framlagi fjölda aðila sem standa að menningarlífi í borginni og annarra sem nota þetta tækifæri til að setja svip sinn á borgarlífið,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×