Líkur á ađ saga Akranesbćjar endi á haugunum

 
Innlent
16:03 16. FEBRÚAR 2016
Akranes.
Akranes. VÍSIR/GVA

„Það er ekki gott ef sagan fer á haugana,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri útgáfufélagsins Uppheima, í samtali við Vísi en hann áætlar að einhver 250 til 300 bindi af Sögu Akranesbæjar endi á haugunum.

Um er að ræða fyrstu tvö bindin af sögu bæjarins en ritun þeirra lauk árið 2011 og hafði þá tekið um fjórtán ár í vinnslu og kostað bæjarfélagið hátt í hundrað milljónir króna. Sveinn Andri sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrr í dag að hann hefði viljað fá milljón krónur fyrir bindin en bærinn var ekki tilbúinn til að greiða meira en hálfa milljón króna fyrir þau.

„Það halda margir að þeir geti fengið hluti á lágu verði ef þrotabú á í hlut en það var bara ekki hægt að fara eins lágt og þau buðu,“ segir Sveinn.

Hann segir bindin fara á markað félags bóksala í lok febrúar og þar verður hægt að tryggja sér eintök af þessari sögu Akraness. Það sem ekki selst fer á haugana.

„Áður en ég var skipaður skiptastjóri þá var sjö tonnum af bókum fargað og þetta eru 23 bretti. Það sem ég sel ekki á næstu mánuðum, því þarf þrotabúið að farga, annars leggst á þetta geymslukostnaður,“ segir Sveinn.

Þjóðháttafræðingurinn Gunnlaugur Haraldsson vann að ritun sögun Akraness en honum var tilkynnt á fundi í fyrra að Akranesbær myndi ekki leggja fram frekara fjármagn í verkið og því munu seinni tvö bindin ekki koma út.

Ritun sögunnar hefur vakið mikla athygli en fyrstu tvö bindin fengu afar slæma dóma. Harpa Hreinsdóttir, kennari við Fjölbrautarskóla Vesturlands, kallaði verkið „tært bull“ og Páll Baldvin Baldvinsson bókmenntagagnrýnandi sagði vinnuna óvandaða og ekki væri fótur fyrir þeirri sögukenningu sem þar kom fram.

Sá dómur birtist í Fréttatímanum og íhugaði Akranesbær að stefna blaðinu vegna ritdómsins en ekkert varð af því.


Deila
Athugiđ. Allar athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra er ţćr rita. Vísir hvetur lesendur til ađ halda sig viđ málefnalega umrćđu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til ađ fjarlćgja ćrumeiđandi eđa ósćmilegar athugasemdir og ummćli ţeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

 

MEST LESIĐ

  • Nýjast á Vísi
  • Mest Lesiđ
  • Fréttir
  • Sport
  • Viđskipti
  • Lífiđ
Forsíđa / Fréttir / Innlent / Líkur á ađ saga Akranesbćjar endi á haugunum
Fara efst