Innlent

Lífeyrisþegar taldir þurfa að greiða meira

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur
Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur
Tveir þriðju hlutar aldraðra og lífeyrisþega munu greiða mun hærri upphæðir fyrir heilbrigðisþjónustu ef Alþingi samþykkir frumvarp heilbrigðisráðherra þar sem þak er sett á greiðslur í heilbrigðiskerfinu. Þetta er mat Gunnars Alexanders Ólafssonar heilsuhagfræðings.

Með frumvarpinu yrði þak sett á greiðslur í heilbrigðiskerfinu. Almennir notendur ættu að greiða að hámarki 95.200 krónur á tólf mánaða tímabili en lífeyrisþegar og aldraðir að hámarki 63.500 krónur.

Á fundi velferðarnefndar BSRB benti Gunnar á að þótt greiðslur lækki að meðaltali um 36 prósent hjá þeim hópi aldraðra og lífeyrisþega sem noti heilbrigðiskerfið mest hækki greiðslur hjá meirihlutanum í þessum hópi.

Um 37 þúsund manns eru í þeim hópi sem Gunnar telur að myndu greiða meira. Sá hópur greiðir nú um 687 milljónir króna árlega en verði frumvarpið samþykkt segir Gunnar að upphæðin hækki í 1.190 milljónir króna. Hækkunin myndi jafngilda 13.400 króna aukningu á mann.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×