Innlent

Orkuveitan vill losna við Þingvallabústaði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eigendur sumarhúsanna sem nú þurfa að víkja segja fjölskyldurnar þar hafa bundist svæðinu sterkum tilfinningaböndum síðustu sextíu árin.
Eigendur sumarhúsanna sem nú þurfa að víkja segja fjölskyldurnar þar hafa bundist svæðinu sterkum tilfinningaböndum síðustu sextíu árin. Fréttablaðið/Pjetur
„Að mínu mati á Orkuveitan ekki að vera í starfsemi af þessum toga,“ segir Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, um þá ákvörðun að „ljúka nýtingu“ landsins í Nesjavöllum fyrir sumarhús.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir að þegar Hitaveita Reykjavíkur hafi keypti Nesjavelli árið 1964 hafi verið yfirteknir sex leigusamningar um sumarhúsalóðir. Að auki hafi verið gerðir þrír samningar um sumarhúsalóðir við seljandann og venslafólk hans. Gildistími samninganna sé ýmist 50 eða 99 ár. Samningar til 50 ára hafi verið til 2013 og 2014. Leigan var óverðtryggð. „Leigan endurspeglar ekki verðmæti lóðanna, að mati kunnugra,“ segir Eiríkur.

Stjórn Orkuveitunnar ákvað í apríl 2012 að selja sumarhúsalóðirnar. Eigendur sumarhúsanna vildu hins vegar ekki kaupa lóðirnar heldur leigja áfram og greiða 70 þúsund krónur á ári í leigu. Í kæru eigenda eins sumarbústaðarins til Kærunefndar húsamála er bent á að lóðaleiguahafar séu annaðhvort upphaflegir leigutakar eða afkomendur þeirra.

„Fólkið hafi eins og nærri megi geta bundist svæðinu afar sterkum tilfinningalegum böndum og geti ekki hugsað þá hugsun til enda að missa frá sér sumarhús sín eftir allan þennan langa tíma,“ segir í umfjöllun kærunefndarinnar sem vísaði málinu frá.

Stjórn OR ákvað nú í júní að hætta við sölu lóðanna og hætta að nýta þær undir sumarhús. Segir Eiríkur það hafa verið eftir að farið hafi verið yfir umhverfismál á svæðinu. Sagt er mikilvægt vegna hagsmuna Nesjavallavirkjunar að Orkuveitan ráði yfir strandlengjunni þar sem bústaðirnir standa.

Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Eiríkur segir lóðirnar í grennd við afkastamesta vatnsból á landinu, kaldavatnsbólið við Grámel. Ekki hafi verið skilgreint vatnsverndarsvæði í kringum vatnsbólið enn sem komið er þar sem vatnið hafi að langmestu leyti verið nýtt til upphitunar í Nesjavallavirkjun fyrir hitaveituna.

„Ekki er víst að svo verði um alla framtíð. Þá eru lóðirnar innan áhrifasvæðis Nesjavallavirkjunar og tryggara talið að halda þeim í eigu OR,“ útskýrir Eiríkur.

Haraldur Flosi bendir á að lóðir standi á afar eftirsóttum stað við Þingvallavatn. „Það er vandratað fyrir fyrirtæki í opinberri eigu að úthluta slíkum sameiginlegum gæðum til einstaklinga,“ segir stjórnarformaðurinn sem kveðst þess utan telja að tíma og athygli starfsmanna Orkuveitunnar sé betur varið í annað en útleigu sumarhúsalóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×