Innlent

Lesblind börn læra lestur með hundum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Óhefðbundið
Óhefðbundið
Verkefni þar sem börn með lestrarörðugleika lásu fyrir hunda sló í gegn á Seltjarnarnesi í vetur.

„Við fengum helstu upplýsingar um persónuleika barnanna og Brynja Tomer, sem er algjör hundasérfræðingur, paraði hunda og börn samkvæmt því,“ segir Margrét Sigurðardóttir, æskulýðsfulltrúi og forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Selsins á Seltjarnarnesi. Margrét, ásamt Brynju, fór af stað með verkefnið í samstarfi við yfirvöld Valhúsaskóla eftir að henni barst til eyrna að slíkt hefði gefist vel í Bandaríkjunum. Fjögur börn, fjórir hundar og hundaeigendur voru fengin til þátttöku.

„Við vinnum þetta verkefni á þeim forsendum að það sé ekki verið að leiðrétta barnið.“ Þegar barn er sífellt leiðrétt myndast stress við að ná hverju einasta orði réttu og skilningur á samhengi textans týnist.

„Þetta er svo dásamlegt. Hundarnir mæna bara á börnin. Þeir eru ekkert að leiðrétta heldur dá þau,“ útskýrir Margrét. Hundaeigendurnir voru einnig lykilaðilar í verkefninu. Ef upp kom orð sem ekki telst í orðaforða tíu ára barns útskýrði það, með hjálp eigandans, merkingu orðsins fyrir hundinum.

„Það er lestrarskali í skólum sem öll börn eru mæld eftir og öll börnin fjögur höfðu færst ofar á honum,“ segir Margrét um niðurstöður verkefnisins.

„Eitt barn sem vildi aldrei lesa heima þegar við byrjuðum í þessu var í lok verkefnisins byrjað að fara upp í rúm og lesa sjálft. Annað barn, sem átti annað gæludýr heima en hund, var byrjað að lesa fyrir það gæludýr.“

Margrét Sigurðardóttir
„Ég er mjög stolt af þessu og af hópnum okkar öllum. Ég hefði aldrei getað gert þetta ein.“

Margrét segir afar mikilvægt, ef fleiri hafa áhuga á að ráðast í slíkt verkefni, að það fari í gegnum samtökin Vigdís, vinir gæludýra á Íslandi, til þess að rétt sé að því staðið. „Verkefnið kemur frá samtökum að nafni R.E.A.D., Reading Education Assistance Dogs, sem hefur haldið námskeið fyrir okkur,“ útskýrir hún. 

„Þetta var svo fallegt verkefni, ég var alltaf með gæsahúð,“ segir Margrét og bætir við að það séu engar ýkjur. „Börnin komu yfir til okkar í félagsmiðstöðina á handahlaupum.“

Til stendur að halda áfram með verkefnið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×