Sport

Lengsta kast Íslendings á stórmóti frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá vinstri Vésteinn Hafsteinsson, Daniel Stahl, Guðni Valur Guðnason og Pétur Guðmundsson.
Frá vinstri Vésteinn Hafsteinsson, Daniel Stahl, Guðni Valur Guðnason og Pétur Guðmundsson. Mynd/Fésbókarsíða FRÍ
ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason stóð sig mjög vel á sínu fyrsta stórmóti í gær þegar hann kastaði kringlunni 61,20 metra.

Guðni Valur náði sínum besta kasti í þriðju og síðustu tilraun (61,20 metrar) en hann hafði kastað 58,18 metra og 57,91 metra í fyrstu tveimur köstum sínum.

Lokakastið var ekki aðeins lengsta kast Guðna á þessu EM heldur var það einnig lengsta kast hans á árinu. Hann hafði lengst kastað 60,72 metra en persónulega met hans er kast upp á 63,50 metra.

Guðni Valur náði ekki að tryggja sér sæti í tólf manna úrslitunum og endaði í 22.sæti í forkeppninni. Þessi frumraun gefur aftur á móti góð fyrirheit um framhaldið enda er Guðni Valur enn bara tvítugur.  

Við nánari athugum komst Frjálsíþróttasamband Íslands einnig að því að þetta kast Guðna hafi í raun verið sögulegt.

„Eftir nánari skoðun kemur í ljós að þetta er lengsta kast Íslendings á stórmóti frá upphafi. Vésteinn Hafsteinsson, Erlendur Valdimarsson og Óskar Jakobsson náðu aldrei svo löngum köstum á HM, ÓL, eða EM," segir á fésbókarsíðu sambandsins.

Vésteinn Hafsteinsson á Íslandsmetið sem er kast upp á 67,64 metra frá árinu 1989 eða sex árum áður en Guðni Valur fæddist. Erlendur Valdimarsson er sá Íslendingur sem hefur kastað næstlengst (64,32 metra) en Guðni Valur komst upp fyrir Óskar Jakobsson og í þriðja sætið á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×