Enski boltinn

Leikmaður Norwich og N-Írlands kærður fyrir að veðja á leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lafferty er ein skærasta stjarna norður-írska landsliðsins.
Lafferty er ein skærasta stjarna norður-írska landsliðsins. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið hefur kært norður-írska framherjann Kyle Lafferty vegna brots á reglum um veðmál.

Talið er að Lafferty, sem leikur með Norwich, hafi veðjað á leik 20. febrúar á þessu ári.

Norwich spilaði ekki þennan umrædda dag en þá fóru fram leikir í 5. umferð ensku bikarkeppninnar, auk leikja í neðri deildunum.

Reglur enska knattspyrnusambandsins kveða á um að leikmönnum í ensku deildakeppninni sé með öllu óheimilt að veðja á fótbolta, hvort sem það er á úrslit eða atburðarrás leikja.

Lafferty hefur frest til 5. ágúst til að andmæla kærunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×