Innlent

Leiðsögumenn kæra Orkuveituna

Freyr Bjarnason skrifar
Þremenningarnir segja að OR hafi allan tímann ætlað að láta ION Hótel fá veiðiréttinn.
Þremenningarnir segja að OR hafi allan tímann ætlað að láta ION Hótel fá veiðiréttinn. Fréttablaðið/Vilhelm
Þrír menn ætla að kæra Orkuveitu Reykjavíkur og segja þeir að fyrirtækið hafi ekki farið að lögum þegar verðfyrirspurn var gerð vegna veiðiréttar í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni í september í fyrra.

„Við erum ósáttir og teljum að það hafi ekki verið farið að lögum og ekki verið gætt jafnræðis,“ segir Helgi Guðbrandsson, leiðsögumaður.

Tvær verðfyrirspurnir voru gerðar. Í þeirri fyrri buðu með Helga þeir Jóhann Birgisson, leiðsögumaður og Belginn René Beaumont samtals 1,8 milljónir króna í veiðiréttinn. ION Hótel, sem er með starfsemi á Nesjavöllum, bauð einnig í réttinn og var það tilboð 50 þúsund krónum hærra. Þriðji tilboðsaðilinn bauð rúmar 600 þúsund krónur. Ekki var tekið við tilboðum í gegnum lokuð umslög heldur tölvupóst.

Tilboði ION var tekið en skömmu síðar lásu Helgi og félagar á síðunni Flugur.is að það hefði borist seinni part dags. „Þegar við inntum OR eftir því hvenær tilboðið hefði borist viðurkenndu þeir að það hefði komið tveimur tímum eftir að útboði lauk,“ segir Helgi. „Þetta er algjörlega óverðlagt svæði. Menn eru að skjóta út í loftið og svo munar bara 50 þúsund kalli. Þess vegna óskuðum við eftir því að fá að sjá þeirra tilboð en þá var okkur þverneitað. Það getur hver sem er séð að þetta er ósanngjarnt. Við vildum ekki að hótelið fengi tækifæri til að skoða okkar tilboð og gera svo sitt eigið.“

Í framhaldinu óskaði OR eftir því að Helgi og félagar myndu leysa málið með því að semja við ION um samstarf. Viðræður fóru fram en báru engan árangur. Loks ákvað OR að efna til annarrar verðfyrirspurnar vegna „formgalla“. Þar fengu aðeins þeir sem höfðu áður tekið þátt að vera með. „Við sögðum að við gætum tekið þátt en ekki ef ION yrði líka með því þeir tóku ekki þátt í fyrri verðfyrirspurninni,“ segir Helgi og vísar þar í að tilboð þeirra hafi komið of seint. Sú varð ekki raunin og á endanum bauð ION mun hærra en annar tilboðsaðili og hreppti hnossið.

Hann bætir við að upphaflega hafi OR ætlað að láta ION Hótel fá veiðiréttinn án þess að efna til nokkurs útboðs eða verðfyrirspurnar. ION hefði þegar haft samband við leiðsögumenn um að veita veiðimönnum leiðsögn á svæðinu. „Okkar upplifun er mjög skýr. ION átti að fá þetta sama hvað. Maður trúir varla þessum vinnubrögðum. Þetta er opinbert fyrirtæki sem gefur sig út fyrir gegnsæi en telur sig samt hafið yfir lög og velsæmi.“



Standa öðruvísi að þessu næst

Hálfdán Gunnarsson, forstöðumaður innkaupa og rekstrarþjónustu OR, segir að veiðirétturinn hafi verið auglýstur til eins árs í reynsluskyni. OR hafi rennt blint í sjóinn með verðmæti réttarins og ákveðið að gera verðfyrirspurn án þess að fara í formlegt útboð. Í auglýsingunni setti OR þau skilyrði, fyrst veiðiréttarhafa við vatnið, að leyfa eingöngu fluguveiði sem og skyldu um að öllum urriða skyldi sleppt. Þetta hafi verið gert til að stuðla að verndun urriðans við Þingvallavatn og koma í veg fyrir slæma umgengni um svæðið.

„Þarna var skýrt tekið fram að OR áskilji sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er ásamt því að hafna öllum. ION Hótel bað okkur fyrirfram um að fá að skila inn eftir liðinn frest og við veittum þeim heimild fyrir því,“ segir Hálfdán, sem vill ekki meina að með því hafi verið brotið á rétti Helga og félaga. „Ég hef sagt þeim að ef þeir hefðu beðið mig um það sama hefði ég líka veitt þeim það,“ segir hann og bætir við að útboðskylda sé hjá OR í fjárhæðum sem eru yfir sjö milljónir króna. Þarna var um mun lægri fjárhæðir að ræða. „En við ætlum þó að standa öðruvísi að þessu fyrir 2015 og opna innkomin tilboð í viðurvist þeirra sem þess óska.“

Hálfdán telur að langt hafi verið gengið í að koma til móts við sjónarmið þremenninganna í málinu, m.a. með því að bjóða þeim að ganga að hluta inn í samninginn um veiðina á komandi sumri en það hafi Helgi og félagar ekki þegið. „En það er ljóst að það eru margir svekktir yfir því að veiðirétturinn skyldi leigður út og takmarkanir settar á veiðina. Þarna hafa margir veitt í leyfisleysi, bæði endurgjalds- og eftirlitslaust í gegnum tíðina, og finnst þeim eflaust súrt í brotið, en nauðsynlegt var að grípa í taumana. “








Fleiri fréttir

Sjá meira


×